„Ætti aldrei að skammast sín fyrir að vera hún sjálf“

Grunnskólabörn að leik. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Grunnskólabörn að leik. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Styrmir Kári

„Samvinnan og fræðslan er svo gríðarlega mikilvæg,“ segir Ragnheiður Jóna Laufdal Aðalsteinsdóttir, kennari við Vatnsendaskóla, í samtali við mbl.is. Ragnheiður var umsjónarkennari transstúlku sem hóf skólagöngu áður en ferlið hófst og hefur Ragnheiður því aflað sér mikillar þekkingar um málefni transbarna og öðlast nokkra reynslu í störfum sínum.

Í tilefni af Hinsegin dögum fer fram fræðsluviðburður í Stúdentakjallaranum sem ber yfirskriftina Trans börn og ungmenni á Íslandi. Þar mun Ragnheiður halda erindi og miðla reynslu sinni af því að kenna transnemenda, segja frá því hvernig ferlið gekk fyrir sig frá því að nemandinn kom í skólann og fara yfir sitt hvað sem skólar geta gert betur til að taka á móti transbörnum.

Fræðsla af skornum skammti

„Oft stendur þetta svolítið og fellur með kennaranum og starfsfólki skólans. Fólk kannski er allt af vilja gert til að hjálpa nemendunum en veit ekki hvaða bjargir eru til staðar eða hvernig á að athafna sig, veit ekki hvert það á að leita og hvar það á að fá fræðslu. Og fólk er að gera þetta í fyrsta skipti og það er hrætt við að gera mistök,“ segir Ragnheiður.

Hún segir fræðslu vera af skornum skammti hér á landi en sjálf sótti hún sína þekkingu til Seattle í Bandaríkjunum á sérstakri ráðstefnu fyrir fagfólk. Sú fræðsla hefur komið sér vel, jafnvel þótt ákveðinn stigsmunur sé á Íslandi og Bandaríkjunum hvað þetta varðar, einkum í ljósi smæðar íslensks samfélags. „Flestir vita hér hvaða börn þetta eru en í Bandaríkjunum er þetta meira gert í leyni,“ útskýrir Ragnheiður. „Þetta snýst náttúrlega líka um öryggi.“  

Ragnheiður sótti þekkingu til Bandaríkjanna en hún segir meiri leynd …
Ragnheiður sótti þekkingu til Bandaríkjanna en hún segir meiri leynd ríkja um transbörn þar en hér. AFP

Hvað er hægt að gera betur?

„Það er heill hellingur,“ segir Ragnheiður, spurð hvað það er sem skólar geta gert betur til að taka á móti og mæta þörfum transnemenda. Í fyrsta lagi þurfi að útrýma kynjaklósettum, enda séu sér stráka- og stelpuklósett ónauðsynleg þar sem allir geti notað klósett sem ekki eru sérstaklega skilgreind eftir kynjum.

Einnig sé fræðsla kennara, hvort heldur sem um ræðir menntun nýrra kennara eða endurmenntun, gríðarlega mikilvæg. Þá sé mikilvægt að mynda teymi innan skólans svo að fleiri hafi þekkingu á málinu. „Sérstaklega kannski ef kennari forfallast þá er kannski deildarstjóri, námsráðgjafi eða hjúkrunarfræðingur sem barnið og foreldrar geta leitað til. Það sé ekki bara einhver einn kennari sem allt stendur og fellur með,“ útskýrir Ragnheiður.

Þá sé gott að barnið hafi einhvern bandamann innan skólans, til að mynda svokallaðan skólavin; eldri nemanda sem er hinum yngri innan handar.

Allur skólinn fékk fræðslu

„Í mínu tilfelli þá var fræðsla þannig að þegar nafnabreyting á sér stað, þá boða ég alla foreldra í bekknum á fund og tilkynni þeim að það er að koma ný stelpa í bekkinn. Svo fór ég með fræðslu á allt stigið; ég fræddi sem sagt nemendur, allan árganginn, alla foreldra, sendi foreldrum í öllum árganginum póst og svo fræddum við allan skólann. Við fræddum alla kennarana og allt starfsfólkið og báðum um að nýja nafnið væri notað,“ útskýrir Ragnheiður.

„Í okkar tilfelli hefur það gengið rosa vel en ég held að fræðsla sé lykilatriði. Svo nýttum við lífsleiknitímana í fræðslu um fjölbreytni í nemendahópnum,“ segir hún. Þá fékk nemandinn einnig leiðsögn og stuðning varðandi hvernig mætti takast á við mótlæti, svara óviðeigandi spurningum eða bregðast við stríðni ef svo bæri undir.

„Og að vera sterk og standa með sjálfri sér. Við höfum alltaf talað um að hún ætti aldrei að skammast sín fyrir að vera hún sjálf - það er allt við hana eins og það ætti að vera,“ bætir Ragnheiður við. „Þá er mjög mikilvægt líka að vinna að sjálfsmyndinni og félagatengslum til að koma í veg fyrir einangrun og önnur vandamál og styrkja börnin í því að vinna með það.“

Fræðsluviðburðurinn um transbörn og ungmenni á Íslandi í tengslum við …
Fræðsluviðburðurinn um transbörn og ungmenni á Íslandi í tengslum við Hinsegin daga fer fram í Stúdentakjallaranum á morgun, miðvikudaginn 9. ágúst, klukkan 12 og er opinn öllum. mbl.is/Ómar

Orðin sterk ung stelpa

Þá segir Ragnheiður samvinnu foreldra stúlkunnar og kennara skólans hafa átt stóran þátt í því að gera sögu hennar farsæla. „Það skiptir máli. Við vorum öll að gera þetta í fyrsta sinn, við vorum öll að prófa okkur áfram en saman gátum við gert þetta eins gott og hægt var. Af því þau voru líka hrædd um að hún yrði fyrir fordómum og að hún yrði stimpluð á einhvern hátt,“ segir Ragnheiður.

Tekur hún þó fram að ekki sé sjálfgefið að það sem hentaði í tilfelli hennar nemanda henti öllum öðrum. Einstaklingarnir séu auðvitað eins misjafnir og þeir eru margir og hver og einn einstakur á sinn hátt. „Alla vega er litla daman mín orðin sterk og ung stelpa. Hún var sex ára þegar ég hitti hana fyrst, svo það gengur vel í okkar tilfelli,“ segir Ragnheiður að lokum.

Fræðsluviðburðurinn um transbörn og ungmenni á Íslandi í tengslum við Hinsegin daga fer fram í Stúdentakjallaranum á morgun, miðvikudaginn 9. ágúst, klukkan 12 og er opinn öllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert