Umferð jókst mest á Norður- og Austurlandi

Umferðin úr bænum sl. helgi.
Umferðin úr bænum sl. helgi. mbl.is/Árni Sæberg

Umferð á Norður- og Austurlandi jókst til muna yfir verslunarmannahelgina. Aftur á móti var hefðbundin aukning umferðar á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi. Þá kom aukningin á Norðurlandi, 17,4 %, mest á óvart.

Þetta segir Friðleifur Ingi Brynjarsson, verkefnastjóri á umferðadeild Vegagerðarinnar.

Samanborið við tvö síðustu ár var mun meiri umferð um Norður- og Austurland en minni um Suður- og Vesturland.

Umferðin á Suðurlandi jókst um 5,5%, á meðan hún jókst um 3,2% á höfuðborgarsvæðinu og um 4,6 % á Vesturlandi. Telst þetta allt nokkuð hefðbundin aukning yfir helgina að sögn Friðleifs.

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Umferðin um Norðurland jókst um 17,4% en á Austurlandi jókst hún um 24,7%. Friðleifur segir að tölurnar frá Norðurlandi komi mest á óvart, þrátt fyrir háar tölur frá Austurlandi:

„Umferðin á Austurlandi hefur verið að aukast mjög mikið hlutfallslega,“ segir Friðleifur og bætir við: „Þó að þetta sé voðalega mikið þá er þetta ekki óvænt því að þetta er í takt við umferðaraukningu sem hefur verið undanfarna mánuði á Austurlandi.“

Hann segir að yfir verslunarmannahelgina sé umferðin afar breytileg og niðurstöður mælinga rokki ár eftir ár. Þá ráðist streymi umferðar kannski mest af veðri: „Ég held þetta snúist mest um það hvernig viðrar og hvernig stemmarinn sé,“ segir hann.  

Tölur þessar eru byggðar á umferðarmælingum frá 16 lykilteljurum í hverjum landshluta. Mælingarnar eru frá og með föstudeginum til og með mánudags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert