Fá að kjósa en nýja fræðslustefnan gildir í haust

Ólafsfjörður. Ný fræðslustefna Fjallabyggðar felur m.a. í sér að börn …
Ólafsfjörður. Ný fræðslustefna Fjallabyggðar felur m.a. í sér að börn í 1.-5. bekk fái kennslu á Sigluf­irði en kennsla í 6.-10. bekk fer fram á Ólafs­firði. mbl.is/Sigurður Bogi

Efnt verður til íbúakosningar um nýja fræðslustefnu Fjallabyggðar og með því brugðist við mótmælum við fræðslustefnunni. Skólastarf nú í haust mun þó hefjast í samræmi við fræðslustefnuna. Þetta segir Ríkey Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóra fræðslu-, frístunda og menningarmála hjá Fjallabyggð.

Um 600 manns, eða tæplega 40% íbúa Fjallabyggðar skrifuðu undir undirskriftalista nú í sumar þar sem þeir mót­mæltu breyt­ing­um á fræðslu­stefnu sveit­ar­fé­lags­ins. Breyt­ing­in felur m.a. í sér að börn í 1.-5. bekk fái kennslu á Sigluf­irði en kennsla í 6.-10. bekk fer fram á Ólafs­firði.

„Kosningin verður, en það mun ekki breyta neinu fyrir skólabyrjun þar sem bæjarstjórn hafði samþykkt fræðslustefnuna í vor og allt skipulag miðast við hana,“ segir  Ríkey. Skólastarfi hefst því nú í haust með hliðsjón af nýju fræðslustefnunni.

Síðasta skref í löngu ákveðnu ferli

Jónína Magnúsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar, segir sinn undirbúning fyrir skólastarfið miðast við nýju fræðslustefnuna. „Þetta er ekki í fyrsta skipta sem að við erum að flytja nemendur á milli byggðakjarna. Þetta er í raun þriðja og síðasta skrefið í ferli sem var ákveðið fyrir löngu síðan,“ segir hún. Mjög mörg skref hafi verið tekin í sameiningu Grunnskóla Fjallabyggðar, en frekari sameiningu var síðast frestað árið 2010 þar til nú í ár.

Hún segir frestunina mögulega hafa kallað á þessi hörðu viðbrögð nú.

„Það eru góðar breytingar í þessu sambandi líka,“ segir Jónína um nýju fræðslustefnuna. Nefnir hún sem dæmi að með henni sé að auka þjónustu við nemendur. „Það er verið að setja svonefnda frístund á laggirnar fyrir yngstu börnin, sem er í beinu framhaldi af skólastarfi.“ Allir nemendur 1.-4. bekkjar séu velkomnir þangað og þá gefist foreldrum færi á að kaupa  gæslu, svo nefnda lengda viðveru, að henni lokinni. „Síðan munu nemendur fá hafragraut á morgnana og ávaxtabita áður en þau fara í frístundina, eða heim, og svo fá þau ritföng. Þannig að það er verið að auka þjónustu við nemendur og foreldra.“

Að sögn Ríkeyjar er ekki búið að ákveða hvenær íbúakosning um fræðslustefnuna fer fram, en að bæjarstjórn hafi ár til að framkvæma kosninguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert