„Miklu fleiri“ níðingar fengið uppreist æru

Brynjar Níelsson er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Brynjar Níelsson er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. mbl.is/Árni Sæberg

Fleiri kynferðisbrotamenn en Robert Downey, sem brotið hafa alvarlega gagnvart börnum, hafa fengið uppreist æru á síðustu árum. Um er að ræða einstaklinga sem hafa framið enn alvarlegri brot gagnvart börnum og hlotið mun þyngri dóma en Robert. Þetta fullyrðir Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í samtali við mbl.is.

Robert var árið 2008 dæmd­ur í þriggja ára fang­elsi fyr­ir kyn­ferðis­brot gegn fjór­um ung­lings­stúlk­um, en hann fékk uppreist æru á síðasta ári. „Það eru til alvarlegri brot heldur en þessi gagnvart börnum,“ segir Brynjar. Hann staðfestir að þeir sem hafi brotið af sér með slíkum hætti og fengið uppreist æru, séu „miklu fleiri“ en Robert.

„Enginn sagði neitt þá. Þetta komst bara í umræðuna því hann ætlaði að sækja um starfsréttindi sín aftur. Menn hafa fengið uppreist æru sem hafa myrt annan mann,“ bætir Brynjar við.

Vernda upplýsingar umsækjenda líkt og hælisleitenda

Sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fékk Brynjar nýlega afhent gögn frá dómsmálaráðuneytinu um mál Roberts, en nefndin hafði kallað eftir gögnunum um miðjan júlí. Hann gerir ráð fyrir að boðað verði til fundar í nefndinni strax eftir helgi þar sem farið verður yfir málið.

Í gögnunum er meðal annars að finna meðmælendabréf sem tveir einstaklingar skrifuðu undir fyrir Robert áður en ákvörðun var tekin um að veita honum uppreist æru. Brynjar segir meðmælendabréfin vera trúnaðarmál eðli síns vegna.

„Vandamálið í gögnunum eru þessi bréf. Vitnisburður um stöðu mannanna sem sækja um uppreist æru. Í þeim eru ýmsar persónuupplýsingar og þær eru vandamálið,“ segir Brynjar, en um er að ræða upplýsingar um hagi þeirra einstaklinga sem sækja um, sem geta verið viðkvæmar.

„Það gildir það sama um þá sem sækja um uppreist æru og þá sem sækja um hæli eða eitthvað annað. Það á jafnt yfir alla að ganga, það fer ekki eftir málaflokkum. Fólk sækir um ákveðin réttindi. Sumir sækja um hæli, aðrir sækja um að endurheimta borgaraleg réttindi sín. Þá liggja ýmsar upplýsingar fyrir sem eru auðvitað verndaðar af persónuverndarlöggjöfinni. Menn verða að sætta sig við það þó um sé að ræða Robert Downey.“

„Þeir sem hæst láta vilja berja á þeim“

Brynjar segir því ekki verið að vernda þá einstaklinga sem veittu meðmælin með neinum hætti, enda geti vel verið að nöfn þeirra verði gerð opinber þegar fram í sækir. Hann getur þó ekki staðfest það. Hann segir jafnframt að það hverjir þessir einstaklingar eru skipti engu máli fyrir umræðuna.

„Ég veit ekki hvaða máli það skiptir í umræðu nefndarinnar, enda er hún að kanna allt aðra hluti. Umræðan snýst um það hvort ráðuneytið hafi farið að lögum og hvort breyta þurfi lögum, ekki hvaða maður vitnar um einhvern einstakling og segir frá stöðu hans eftir að dómur gengur. Hvað varðar okkur um það hver það er og hvers vegna? Eina ástæðan er sú að þeir sem hæst láta vilja berja á þeim,“ segir Brynjar.

„Við erum í sjálfu sér ekkert að hnýsast í það hverjir skrifuðu einhver bréf. Þetta er allt samkvæmt einhverju formi og lagaskilyrðum. Einhverjir sem þekkja til viðkomandi upplýsa um stöðu hans í dag. Nú er hálf þjóðin að heimta að fá upplýsingar um hvaða menn það voru, eins og hana varði eitthvað um það.“

Brynjar segir meðmælendur ekki bera neina ábyrgð á því hvort einstaklingur fær uppreist æru eða ekki. „Þeir eru bara að staðfesta það hvernig einstaklingurinn hefur hagað sér og hver staða hans er í dag. Það eru svo skilyrði í lögunum sem viðkomandi þarf að uppfylla.“

Munu upplýsa um fjölda umsókna

Í gögnunum frá dómsmálaráðuneytinu eru einnig upplýsingar um fjölda þeirra einstaklinga sem hefur verið veitt uppreist æru og fjölda þeirra sem hefur verið hafnað. Ráðuneytið upplýsir um það hvernig þessum málum hefur verið háttað inni á borði hjá þeim.

Brynjar er ekki tilbúinn að gefa upplýsingar um fjöldann að svo stöddu, enda á hann eftir að kynna gögnin fyrir nefndinni. Hann segir hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að þær upplýsingar verði gerðar opinberar.

„Það eru engar persónuupplýsingar þar, þetta er bara tölfræði, en auðvitað geta menn tengt hana ákveðnum málum. Þetta mun liggja fyrir einhvern tíma. Ráðuneytið gerir væntanlega grein fyrir þessum upplýsingum.“

mbl.is