Hugsa bara um að hjóla og njóta

Bergur Benediktsson tekur þátt í WOW Glacier hjólreiðakeppninni í annað …
Bergur Benediktsson tekur þátt í WOW Glacier hjólreiðakeppninni í annað sinn í ár. Upplifun hans af keppninni í fyrra er ekkert nema jákvæð. Ljósmynd/Snorri Þór Tryggvason

„Þetta er eitthvað sem allir sem eru eitthvað að hjóla ættu að prófa,“ segir Bergur Benediktsson um hjólreiðakeppnina WOW Glacier 360 en hann tekur þátt í annað sinn í ár. Í keppninni kynnast keppendur landslagi Íslands á einstakan hátt þegar þeir hjóla um hálendi Íslands á þremur dögum. 

Tók hann þátt í keppninni í fyrra en það var í fyrsta skiptið sem hún var haldin. Þá hjólaði hann í karlaflokki með Bjarka Bjarnasyni félaga sínum. Þeir voru fyrstir í mark af alíslensku liðunum og má segja að það sé góður árangur. „Mér fannst það en félaga mínum fannst það ekki endilega, hann hefði viljað fara hraðar,“ segir Bergur og hlær.

Í fyrra hjólaði Bergur í karlaflokki með Bjarka Bjarnasyni félaga …
Í fyrra hjólaði Bergur í karlaflokki með Bjarka Bjarnasyni félaga sínum með góðum árangri. Í ár tekur hann hins vegar þátt í blönduðum flokki karla og kvenna með kanadískri vinkonu sinni, Liz Sampey. Ljósmynd/Snorri Þór Tryggvason

„Þarf ekki að hugsa um neitt nema hjóla, borða og hvíla sig“

Bergur hefur keppt í alls konar hjólreiðakeppnum en hann segist aldrei hafa keppt í neinu þessu líkt áður, „ekki þar sem eru bæði liðakeppni og í þrjá daga samfleytt“. Upplifun hans af keppninni í fyrra er ekkert nema jákvæð. Hann segir að leiðin hafi verið skemmtileg, „bæði fjölbreytt landslagið og slóðarnir og leiðirnar sem við vorum að hjóla.“

„Almennt fannst mér þetta ótrúlega vel heppnaður viðburður,“ segir Bergur og bætir við að skipuleggjendur keppninnar haldi vel utan um allt, setji upp tjaldbúðir og útvegi mat handa keppendum. „Maður þarf ekki að hugsa um neitt nema hjóla, borða og hvíla sig.“

Það sem kom honum mest á óvart var að hann átti von á því að verða alltaf þreyttari sem leið á keppnina. „En svo endaði þetta með því að ég varð eiginlega alltaf sprækari og sprækari með hverjum deginum og ég held að flestir hafi upplifað þetta svipað.“

„Almennt fannst mér þetta ótrúlega vel heppnaður viðburður,“ segir Bergur. …
„Almennt fannst mér þetta ótrúlega vel heppnaður viðburður,“ segir Bergur. „Maður þarf ekki að hugsa um neitt nema hjóla, borða og hvíla sig.“ Ljósmynd/Rut Sigurðardóttir

Hjólar með öflugri hjólreiðakonu frá Kanada

Í ár tekur hann þátt í blönduðum flokki karla og kvenna en með honum hjólar Liz Sampey frá Kanada. Liz kom til fyrsta skipti til Íslands á vegum reiðhjólafyrirtækis sem hún vinnur fyrir og kemur núna aftur til þess að taka þátt í keppninni. „Hún er mjög öflug,“ segir Bergur.

„Pörin verða að fylgjast að allan tímann og reynir því verulega á samstarfið og samskiptin þar sem annar einstaklingurinn er oftar en ekki í betra líkamlegu formi en hinn,“ segir Bergur.

„Förum eins hratt og við getum en þetta snýst líka um að njóta“

Bergur segir það vera mismunandi með hvaða hugarfari fólk fer í keppnina. Fólk taki bæði þátt til þess að keppa við tímann og ná árangri eða taki henni sem persónulegri áskorun. Segir hann Liz og hann vera blöndu af báðu. „Við förum eins hratt og við getum en þetta snýst líka um að njóta og hafa gaman af þessu.“

 „Að ná að klára þetta er afrek út af fyrir sig,“ segir Bergur að lokum en WOW Glacier 360 keppnin fer fram helgina 11. - 13. ágúst. 88 þátttakendur eru skráðir í ár en þar á meðal koma margir erlendis frá.

„Pörin verða að fylgjast að allan tímann og reynir því …
„Pörin verða að fylgjast að allan tímann og reynir því verulega á samstarfið og samskiptin þar sem annar einstaklingurinn er oftar en ekki í betra líkamlegu formi en hinn,“ segir Bergur. Ljósmynd/Snorri Þór Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert