Íbúðalánasjóður fagnar framtaki

mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúðalánasjóður fagnar framtaki hóps fólks sem lýst hefur yfir áhuga á að stofna félag um byggingu og rekstur leiguíbúða.

Boðaður hefur verið opinn fundur um málið í Reykjanesbæ í kvöld, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Sjóðurinn telur mjög jákvætt að fleiri hópar og samtök séu byrjuð að skoða þennan möguleika. Það liggur fyrir að alls ekki allir hafa áttað sig á möguleikum þessa nýja húsnæðiskerfis, sem er að erlendri fyrirmynd, þar sem fólk býr við öruggt langtíma leiguhúsnæði og greiðir leigu á viðráðanlegum kjörum vegna stofnframlaga sem hið opinbera veitir. Þau bætast ofan á framlög sveitarfélaganna sem úthluta lóðum með því skilyrði að íbúðirnar séu reknar án hagnaðarsjónarmiða,“ segir í tilkynningunni.

„Íbúðirnar, sem kallaðar hafa verið leiguheimili, eru ekki hluti af félagslega húsnæðiskerfinu heldur er þetta valkostur og úrræði fyrir þá hópa sem klemmast þarna á milli - sem hafa hvorki nægilega lágar tekjur til að fá verulegar húsnæðisbætur né aðgang að félagslegum húsnæðisúrræðum en eiga um leið erfitt á almennum leigu- og eignamarkaði. Sérstaklega eins og ástandið er núna.“

Í tilkynningunni kemur einnig fram að sérstök fjármögnun stjórnvalda og sveitarfélaga geri samtökum kleift að standa að byggingu íbúða af þessu tagi en stofnframlögin geta dekkað um 30 til 40% af byggginarkostnaði. Er áskilið að leiguverð íbúðanna verði lægra sem því nemur.

„Stofnframlögin eru veitt til langs tíma og þarf ekki að greiða þau til baka fyrr en eftir áratugi. Þegar hafa samtök launafólks og öryrkja fengið slík framlög fyrir sín íbúðafélög en fleiri hópar gætu vissulega staðið að slíkum verkefnum og sótt um fjármagn til Íbúðalánasjóðs og sveitarfélaga þar sem húsnæðisskortur ríkir.“

Íbúðalánasjóður.
Íbúðalánasjóður. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert