Lokað með ökutækjum og vopnuð sérsveit

Fiskidagurinn mikli á Dalvík er fjölmenn hátíð.
Fiskidagurinn mikli á Dalvík er fjölmenn hátíð. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það er engin breyting á áhættumati frá því í vor þannig við nálgumst þennan viðburð og Menningarnótt helgina eftir á sama hátt og aðra viðburði í sumar,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um það hvernig öryggisgæslu verður háttað í Gleðigöngunni á laugardag, en gangan er hápunktur Hinsegin daga.

„Við stýrum lokunum þannig að þær verji gangandi vegfarendur og verðum tilbúnir með lögreglumenn til að bregðast við öllu því sem upp kann að koma á þessari hátíð.“

Sérsveitin verður til staðar líkt og á 17. júní, Color run og Druslugöngunni, en Ásgeir vill meina að það sé ekkert nýtt, enda hafi sérsveitin verið hluti af löggæslunni frá árinu 1982. „Eins og alltaf þá sinnir sérsveitin löggæslu á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig sérsveitin ákveður að hafa þeirra mannskap búinn er þeirra ákvörðun,“ segir hann aðspurður hvort sérsveitarmennirnir verði vopnaðir við störf sín.

Sérsveitin hefur verið vopnuð við gæslu á viðburðum í sumar og má því búast við að þannig verði það einnig á laugardag, ef gæslan verður með sama hætti og áður.

Götum lokað með ökutækjum

Gleðigangan fer ekki sömu leið og áður vegna mikilla framkvæmda í miðborginni, en Ásgeir segir það ekki hafa nein áhrif á skipulag öryggisgæslunnar. „Það er bara nýtt lokunarplan en það er aðallega Reykjavíkurborg sem fær þann hausverk. Þeir hafa sinnt því af stakri snilld. Þeir komu með drög að því hvernig lokunum skyldi háttað sem við erum búin að samþykkja fyrir okkar leyti, en þeir eru ábyrgir fyrir því.“

Lokanir verða með mismunandi hætti, að sögn Ásgeirs, en götum verður meðal annars lokað með bílum, járngrindum og steyptum veggjum. „Við notum ökutæki þar sem um lengri kafla að ræða, eins og við gatnamót og slíkt. Það eru líka staðir sem við viljum hafa mannaða til að opna ef það þarf að rýma eða fá aðstoð inn á svæðið.“

Þurfa því miður auka styrkinn

Það verða þó ekki eingöngu hátíðahöld í Reykjavík um helgina því Fiskidagurinn mikli fer fram á Dalvík á laugardag, og búist er við miklum fjölda gesta líkt og áður.

Sævar Freyr Ingason, lögregluþjónn á Dalvík, segist í samtali við mbl.is verða með 6 manns á vakt á daginn og 12 til 14 manns á nóttunni. „Það verður öflug almenn löggæsla hérna. Við erum til í hvað sem er og tilbúin að takast á við hvað sem er, en til viðbótar verða sérsveitarmenn á svæðinu,“ segir Sævar. Sérsveitarmenninna verða vopnaðir en þeir eiga ekki að vera sýnilegir almenningi.

Sævar vildi óska þess að ekki þyrfti að hafa sérsveitina á svæðinu, en bendir á að það sé orðin raunin á öllum hátíðum á Íslandi í dag. Það þurfi því miður að auka styrkinn með þessum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert