„Okkur langar að sefa ótta þinn“

Brynjar sagði í viðtali við mbl.is í gær að hann …
Brynjar sagði í viðtali við mbl.is í gær að hann teldi að þeir sem hæst létu vildu berja á meðmælendum Roberts. mbl.is/Eggert

Foreldrar einnar stúlkunnar sem Robert Downey var árið 2008 dæmdur fyrir að brjóta gegn, vilja fullvissa Brynjar Níelsson, formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að þau hafi ekki í hyggju að berja á þeim tveimur einstaklingum sem skrifuðu meðmælabréf með Roberti áður en hann fékk uppreist æru á síðasta ári. Það sé ekki ástæðan fyrir því að vilja að nöfn þeirra verði gerð opinber.

Brynjar sagði í viðtali við mbl.is í gær að nöfn þessara tveggja einstaklinga skiptu engu máli í umræðu nefndarinnar, sem mun fara yfir mál Roberts í næstu viku. Sem formaður nefndarinnar fékk Brynjar í vikunni afhent gögn varðandi mál Roberts, þar á meðal meðmælabréfin, sem hann segir trúnaðarmál, eðli síns vegna. 

„Hvað varðar okk­ur um það hver það er og hvers vegna? Eina ástæðan er sú að þeir sem hæst láta vilja berja á þeim,“ sagði Brynjar um það hvers vegna hann teldi fólk vilja vita hverjir veittu Roberti meðmæli.

Vilja spyrja út í upplýsingarnar

Bergur Þór Ingólfsson og Eva Vala Guðjónsdóttir, faðir og stjúpmóðir Nínu Rúnar, sem Robert var dæmdur fyrir að brjóta á, skrifuðu opið bréf til Brynjars á Facebook þar sem þau spyrja meðal annars af hverju hann telur þau vera ofbeldisfólk.

Bergur Þór Ingólfsson skrifar, ásamt konu sinni, opið bréf til …
Bergur Þór Ingólfsson skrifar, ásamt konu sinni, opið bréf til Brynjars á Facebook. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við höfum farið fram á að öll gögn um uppreist æru Robert Downey verði lögð fram opinberlega, þar á meðal nöfn þeirra valinkunnu manna sem veittu téðum Robert(i) vottorð um heilbrigði hans, svo hægt verði að meta hvort rétt hafi verið að málum staðið.

Ekki vitum við hvers vegna þú telur okkur vera ofbeldisfólk en í blaðaviðtali nýlega sagðirðu um þessa beiðni okkar: „Hvað varðar okkur um það hver það er og hvers vegna? Eina ástæðan er sú að þeir sem hæst láta vilja berja á þeim,“ skrifa þau og vísa í viðtalið við Brynjar á mbl.is í gær.

„Okkur langar að sefa ótta þinn og heita þér því að við höfum ekkert slíkt í hyggju. Við höfum rætt við þær stúlkur sem vitað er um að Robert hafi svívirt og þær heita þér hins sama. Við munum ekki berja þá valinkunnu menn sem settu nöfn sín við heilbrigði hans. Því lofum við. Hins vegar langar okkur að spyrja þá hvaða upplýsingar þeir hafi um Robert umfram okkur, ef þér er sama, því hvergi hefur komið fram að hann hafi viðurkennt að hafa aðhafst nokkuð rangt og óttumst þess vegna, að hann muni stunda lögmannsstörf með því hugarfari,“ skrifa þau jafnframt.

„Bætir eitt barnaníð annað?“

Bergur og Eva segja Brynjar bera í bætifláka fyrir glæpi Robers með því að benda á að verri glæpir hafi verið framdir gagnvart börnum, en þeir sem Robert framdi gagnvart dóttur þeirra og hinum stúlkunum sem hann var dæmdur fyrir að brjóta gegn. Sem og þeim sem hafa síðar stigið fram. „Það eru til alvarlegri brot heldur en þessi gagnvart börnum,“ sagði Brynjar í viðtalinu í gær.

„Ertu með því að segja að við höfum misst réttinn til að hafa hátt um þetta mál? Bætir eitt barnaníð annað? Þú heldur áfram og spyrð hvers vegna við höfum ekki stigið fram áður þar sem margir dæmdir barnaníðingar hafi fengið uppreist æru. Við þessu eigum við ekki annað svar en að hvorki höfðum við upplýsingar um fyrri mál né stóðu þau okkur svona nærri.“

Brynjar sagði í viðtalinu að „miklu fleiri“ en Robert hefðu brotið alvarlega gegn börnum og fengið uppreist æru í gegnum tíðina. „Eng­inn sagði neitt þá. Þetta komst bara í umræðuna því hann ætlaði að sækja um starfs­rétt­indi sín aft­ur,“ sagði Brynjar.

Foreldrar Nínu Rúnar segja að þeim sé það mikið í mun að Brynjar gangi opinn og óttalaus til nefndarstarfa þegar mál Roberts verður skoðað, enda sé mikið í húfi. „Við höfum aldrei barið nokkurn mann og munum ekki fara að reisa hnefa þegar við lítum sannleikann augum. Þér er því óhætt að birta okkur öll skjöl um málið og verið viss um að það muni ekki leiða af sér ofbeldi.

Við vonum jafnframt að ef þið leggið niður lögin um uppreist æru, verði sett lög sem eru gagnrýnin, gegnsæ og örugg fyrir okkur almennu borgarana – sérstaklega börnin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert