Ekki rétt að sameiningu hafi verið frestað

Ólafsfjörður. Þeir íbúar Fjallabyggðar sem skrifuðu undir mótmæli gegn nýju …
Ólafsfjörður. Þeir íbúar Fjallabyggðar sem skrifuðu undir mótmæli gegn nýju fræðslustefnunni eru ósáttir með að hún sé keyrð í gegn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ekki er rétt að um frestun á frekari sameiningu hafi verið að ræða þegar hætt var á sínum tíma við láta yngstu nemendur Grunnskóla Fjallabyggðar á Ólafsfirði sækja nám á Siglufirði. Þetta segir Sigríður V. Vigfúsdóttir, íbúi á Siglufirði.

Haft var eftir Jón­ínu Magnús­dótt­ur, skóla­stjóra Grunn­skóla Fjalla­byggðar, í frétt mbl.is á þriðjudag að flutningur nemenda í 1-5 bekk grunnskólans á Ólafsfirði yfir á Siglufjörð væri þriðja og síðasta stig sameiningar skólans, sem frestað hefði verið árið 2010. 

„Þegar sameiningin átti sér stað þá var núverandi skólastjóri aðalmaður í bæjarstjórn. Vegna óánægju þá var hætt við að keyra yngsta stigið á milli, heldur var farið í það að keyra miðstigið og efsta stigið á milli og um það hefur verið þokkaleg sátt síðan 2010,“ segir Sigríður. Fólk sé þó almennt ekki ánægt með að þurfa að senda börn sín á milli í rútu, því nálægðin sé einn af kostum minni byggðarlaga. „Við íbúar teljum því að þetta sé skerðing á lífsgæðum, hvað þá að vera að senda lítil börn í 50 mínútna rútuferð þar sem börn eru bílveik og annað,“ segir hún.

Verið að gera börnin að pólitísku bitbeini

Sigríður segir það hafa komið fólki mjög á óvart þegar bæjarstjórn samþykkti nýja fræðslustefnu í vor, sem m.a. felur í sér að börn í 1.-5. bekk fái kennslu á Sigluf­irði, en kennsla í 6.-10. bekk fer fram á Ólafs­firði.

Um 600 manns, eða tæp­lega 40% íbúa Fjalla­byggðar skrifuðu í kjölfarið und­ir und­ir­skriftal­ista þar sem þeir mót­mæltu breyt­ing­um á fræðslu­stefnu sveit­ar­fé­lags­ins. Haft var eftir Ríkey Sig­ur­björns­dótt­ir, deild­ar­stjóra fræðslu-, frí­stunda og menn­ing­ar­mála hjá Fjalla­byggð, að íbúakosning um fræðslustefnuna muni fara fram innan árs, en að í millitíðinni fari skólastarf fram samkvæmt nýju stefnunni og þar með flutningur yngsta stigsins yfir á Siglufjörð.

Sigríður segir þá sem skrifuðu undir mótmælaskjalið vera ósátta við þetta. „Það eru yfirgnæfandi lýkur á að þessu verði snúið til baka. Þeim okkar sem skrifuðu undir finnst því mjög slæmt að það sé verið að keyra þessar breytingar í gegn, þó að allt útlit sé fyrir að þessu verði breytt aftur. Okkur finnst verið að nota börnin sem pólitískt bitbein.“

Með þessu séu bæjaryfirvöld og  bæjarstjórn að sýna ólýðræðisleg vinnubrögð. „Það er ekki verið að keyra þetta í gegn með hag barnanna að leiðarljós,“ segir Sigríður og bendir á að til að mynda hafi ekki farið fram nein aðlögun fyrir börnin varðandi þessar breytingar.

„Þess utan þá er þetta líka mjög slæm byggðarstefna, því að fjölskyldufólk mun síður velja sér búsetu á Ólafsfirði fyrir vikið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert