Örnefnanefnd líkar ekki við Glimmerskarð

Götuheitið Glimmerskarð þykir full framúrstefnulegt að mati örnefnanefndar.
Götuheitið Glimmerskarð þykir full framúrstefnulegt að mati örnefnanefndar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Örnefnanefnd hefur gert nokkrar athugasemdir við götuheiti í nýju hverfi í Hafnarfirði er nefnist Skarðshlíð 2 og er suðvestan undir Ásfjalli. Meðal athugsemda nefndarinnar er í raun fyrirspurn til bæjarins um hvort það það geti komið til greina að velja annað nafn á götuna Glimmerskarð. Ástæðan er einföld, það er ekki hefð fyrir slíku heiti meðal íslenskra örnefna.

„Hugtakið glimmer er þekkt í jarðfræði þótt það sé ekki eitt af kunnari hugtökum þeirrar fræðigreinar þegar kemur að íslenskri jarðfræði. Önnur heiti gatna í skipulaginu virðast einnig bera þekkta orðliði úr íslensku jarðfræðimáli, t.d apall, hraun, tinna ofl,“ segir í bréfi nefndarinnar sem lagt var fyrir á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar á fimmtudag.

„Telur bærinn koma til greina að velja annað nafn á götuna en Glimmerskarð, td nafn sem samræmist betur íslenskum nafngiftahefðum og vísar til þekktara fyrirbæris í íslenskri jarðfræði eða úr íslensku landslagi?“ spyr nefndin, en málinu hefur verið vísað til skoðunar til umhverfis- og skipulagsþjónustu bæjarins.

Athugasemdirnar eru þó fleiri en þær lúta frekar að öryggi heldur en hefðum. Á þeim forsendum gerir nefndin athugasemd við of lík götuheiti í hverfinu sem geti skapað misskilning og óþarfa áhættu.

„Með tilliti til öryggissjónarmiða, einkum að því er varðar sjúkraflutninga og aðra neyðarþjónustu, telur nefndin ekki forsvaranlegt að nota götuheiti sem eru jafn lík og Bergsskarð og Bjargsskarð annars vegar og Bergsskarð og Móbergsskarð annars vegar.

Þá bendir örnefnanefnd á að samkvæmt uppdrætti af hverfinu, sem birtur er á  heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar, sé ekki að sjá að stafrófsröð sem fylgt í nafngiftum götuheitanna eins og venja er. „Stafrófsröð götuheita er mikilvægt tæki til rötunar. Þetta atriði auðveldar fólki að ná áfangastað, hvort sem um er að ræða neyðartilvik eða ekki,“ segir ennfremur í bréfi örnefnanefndar til bæjarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert