Tugir skáta veiktust hastarlega

Frá Úlfljótsvatni - mynd úr safni
Frá Úlfljótsvatni - mynd úr safni

Magakveisa hefur herjað á erlenda skáta sem hafa dvalið í Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni undanfarna daga. Alls hafa komið upp rúmlega sextíu tilfelli en klukkan 6:30 í morgun höfðu 62 skátar veikst. Orsakir eru ókunnar en talið er að um nóróveiru sé að ræða.

Bandalag íslenskra skáta leitaði í gær til heilbrigðisyfirvalda um aðstoð, að því er segir í tilkynningu frá Bandalagi íslenskra skáta. 

Samkvæmt upplýsingum frá Herdísi Gunnarsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofunnar Suðurlands (HSU) var viðbragðsstjórn HSu virkjuð eftir að veikindin komu upp á Úlfljótsvatni.

Nokkur sambærileg tilfelli komu upp á alþjóðlega skátamótinu sem lauk í síðustu viku á Úlfljótsvatni en þau tilvik voru einangruð og magakveisan gekk yfir á skömmum tíma.

Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta, segir í tilkynningu að málið sé tekið mjög alvarlega og að erlendu skátarnir hafa fengið alla nauðsynlega þjónustu.

Hann segir að þegar hafi verið haft samband við heilbrigðisyfirvöld og hafa viðbragðsaðilar brugðist vel við. Heilbrigðisstofnun Suðurlands stýra aðgerðum, læknar og sjúkraflutningamenn voru sendir á Úlfljótsvatn til að meta aðstæður.

Væntanlega nóróveira

Hermann segir í samtali við mbl.is að fyrstu veikindin hafi komið upp eftir hádegi í gær og síðdegis hafi fimm eða sex skátar verið orðnir veikir. Á nokkrum klukkutímum verða þeir sextíu sem veiktust, segir Hermann. 

Sjúkrahúsið á Selfossi.
Sjúkrahúsið á Selfossi.

Læknir og sjúkraflutningalið frá HSU var sent á vettvang á Úlfljótsvatni til að kanna aðstæður strax í gærkvöldi og mat læknir það svo að þetta sé væntanlega nóróveira sem amar að skátunum en alls voru um 175 manns á Úlfljótsvatni þegar þetta var.

Flestir á aldrinum 10-25 ára

Langflestir þeirra eru börn og ungmenni á aldrinum 10-25 ára. Á miðnætti kom í ljós að um ríflega 55 börn í hópnum eru orðin veik að magakveisu.

Ákveðið var í samráði viðbragðsaðila á Suðurlandi að opna fjöldahjálparstöð vegna sýkingarinnar. Viðbragðsstjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) var því virkjuð og veita björgunarsveitir aðstoð í fjöldahjálparmiðstöðinni sem Rauði krossinn setti upp í grunnskólanum í Hvergerði. Haft var samband við sérfræðing í smitsjúkdómum hjá Landspítalanum. Í kjölfarið voru 170 erlendir skátar sendir í fjöldahjálparstöðina í Hveragerði í varúðarskyni og þar sem þeir veiku fá þá viðeigandi aðstoð.

Tilfellin sem komu upp á nýafstaðna skátamótinu gengu fljótt yfir og segir Hermann vonast til að svo verði einnig með þessi nýju tilfelli. Skátarnir dvelja í fjöldahjálparstöðinni eitthvað fram eftir degi á morgun undir eftirliti þannig að sé tryggt að allir hvílist og nærist vel. Einhverjir gesta á mótinu þá urðu eftir á Íslandi og ekki hægt að útiloka að nóróveiran hafi smitast þannig. Það sé eitt af því sem verið er að rannsaka.

Að sögn Hermanns voru þrír skátar fluttir strax á sjúkrahúsið á Selfossi þar sem þeir fengu meðal annars næringu í æð. Nokkrum klukkutímum síðar voru þeir komnir til félaga sinna í fjöldahjálparmiðstöðina í Hveragerði. Enginn sé alvarlega veikur, segir Hermann.

Ekki vitað hvað veldur sýkingunni

Framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta segir að engar skýringar séu að fá á þessum tímapunkti hvort sé að ræða sýkingu út frá matvælum eða venjulega magapest. Óskað hefur verið eftir úttekt hjá heilbrigðiseftirliti Suðurlands og læknum um að finna skýringar á þessum kvilla og með því er hægt að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Mótssvæði Úlfljótsvatn hefur lengi verið heimavöllur skáta hér á landi …
Mótssvæði Úlfljótsvatn hefur lengi verið heimavöllur skáta hér á landi og hafa fjölmargir erlendir skátar sótt svæðið heim undanfarin ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hermann segir að þetta sé leiðinlegt atvik sem Bandalag íslenskra skáta líti alvarlegum augum. Við erum æskulýðshreyfing sem sinnir ungum einstaklingum og við tökum enga áhættu. Seint í gærkvöldi höfðum við samband við heilbrigðiseftirlitið sem kemur í dag og tekur út starfsemina og gefur okkur leiðbeiningar varðandi næstu skref. Því við eigum von á fleiri erlendum gestum og kemur annar hópur í dag,“ segir Hermann. 

Hann segist ekki getað svarað því á þessu stigi hvort hægt verði að taka á móti þeim á Úlfljótsvatni. Yfirvöld stýri ferlinu og allar ákvarðanir eru í þeirra höndum og Bandalagið hlýði því í einu og öllu. Okkar starfsemi er starfsleyfisskyld og við tökum enga áhættu. 

„Vonandi gengur þessi magakveisa yfir sem fyrst og það finnist skýring á þessum kvilla þannig að hægt sé að koma í veg fyrir að tilfellin verði fleiri.“

Hann segir að þetta sé mjög mikilvægt að skýring finnist sem fyrst þar sem von er á fleiri erlendum skátum sem vænta þess að upplifa góða tíma á Úlfljótsvatni.

Stjórn Bandalags íslenskra skáta vill koma á framfæri þökkum til allra viðbragðsaðila fyrir snögg viðbrögð og góða þjónustu, segir enn fremur í tilkynningu.

Samkvæmt upplýsingum frá HSU voru allir þeir 175 einstaklingar sem dvöldu á Úlfljótsvatni fluttir á fjöldahjálparstöðina meðan verið er að greina eðli og uppruna sýkingarinnar.

Allt tiltækt varalið kallað út

Skólahúsnæðinu þar sem hjálpastöðin er staðsett, hefur verið skipt í tvö aðskilin svæði fyrir þá sem eru sýktir og veikir og fyrir þá sem eru ekki veikir eða einkennalausir. Hjúkrunarfræðingar og læknar af bráðamóttöku HSU á Selfossi eru að störfum og aukið viðbragð er einnig hjá sjúkraflutningamönnum og bráðaliðum HSU á Selfossi.

Samkvæmt upplýsingum frá Herdísi sendi viðbragðsstjórn vakthafandi lækni og sex heilbrigðisstarfsmenn til að greina og veita hinum veiku meðferð með lyfjum og vökvagjöf í æð. Allt tiltækt varalið heilbrigðisstarfsmanna hjá HSU var kallað út í nótt en allt kapp var lagt á að hlúa að öllum sem veikjast og greina alvarleika veikinda til að veita viðeigandi meðferð strax.

Þessi frétt hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert