Alltof margir í símanum

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu varar við notkun síma undir stýri.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu varar við notkun síma undir stýri. mbl.is/Ófeigur

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins segir að alltof margir séu í símanum eða að skoða netsíður í umferðinni. Margir séu ekki með á nótunum og sjái ekki þegar slökkviliðsbílar eru á ferðinni.

Á Facebook-síðu slökkviliðsins kemur einnig fram að farþegar séu með fætur uppi á mælaborðinu eða með krosslagða fætur. Það viti ekki á gott vegna þess að loftpúðar séu ekki bara í mælaborðinu eða stýrinu.

„Hraðinn á púðum þegar þeir koma út er allt frá 150km/klst eða 4.16m/sek. Bein brotna við minna en það.“

Einnig er varað við því að fólk aki með hundana sína í fanginu.

Færslan í heild sinni:

Á hverjum degi eru sjúkrabílarnir okkar á ferðinni um höfuðborgarsvæðið og nágrenni þess. Við sjáum margt sem betur mætti fara í umferðinni. 
Allt of margir eru í símanum eða að skoða netsíður.
Margir eru ekki með á nótunum í umferðinni og verða okkar ekki varir.

Og svo eru þau sem eru með fætur uppi á mælaborðinu eða með krosslagða fætur. Loftpúðarnir eru nefnilega ekki bara uppi í mælaborðinu eða stýrinu, í nýrri bílum eru púðar sem koma út til að verja hné og leggi og aðrir koma út úr sætum.
Hraðinn á púðum þegar þeir koma út er allt frá 150km/klst eða 4.16m/sek. Bein brotna við minna en það.

Svo... ef þig langar til að geta gengið innan við 6 mánuði eftir slys, hafðu báða fætur á gólfinu.

PS. Þið sem haldið á litlu hundunum ykkar í fanginu við akstur - þetta á við hvuttann ykkar líka. Segjum að voffi sé 5kg. Loftpúðinn kemur út á 150km/klst. Það kemur aldrei til með að verða þægilegt.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert