„Ekki séns að fá fólk til starfa“

Mikil mannekla er á leikskólum í Reykjavík og enn ríkir …
Mikil mannekla er á leikskólum í Reykjavík og enn ríkir mikil óvissa með haustið. mbl.is/Árni Sæberg

„Ástandið núna er algjörlega að kristallast í launakjörum. Ófaglærðir í leikskólum eru með svo lág laun að það er ekki séns að fá fólk til starfa,“ segir Fjóla Þorvaldsdóttir, varaformaður félags leikskólakennara.

Enn á eftir að ráða starfsfólk í 132 stöðugildi í leikskólum Reykjavíkur fyrir haustið, en ástandið í nágrannasveitarfélögum er skárra. Deildir eru víða lokaðar vegna manneklu og fjölmargir foreldrar sjá fram á að lenda í vandræðum þar sem börn þeirra fá ekki inni á leikskólum að loknu sumarleyfi. Verst er ástandið í Laugardal, Háaleiti og Vesturbæ.

Fjóla bendir á að starfsfólk leikskólanna skrapi botninn þegar kemur að launakjörum. „Fólk er að fá undir 200 þúsund krónum útborgað á mánuði. Hvernig á fólk að lifa á þessu? Það er ekki hægt. Launin eru engan veginn samkeppnihæf við þau sem bjóðast á ferðaþjónustutengdum vinnustöðum.“

Hún hefur verulegar áhyggjur af ástandinu og segir það svipað og árið 2007, þegar síðast var uppsveifla í þjóðfélaginu.  „Við erum búin að benda á það í ansi mörg ár að svona geti farið, en sveitarfélögin hlusta ekki. Því miður þá er staðan þessi núna.“

Meiri virðing borin fyrir kennurum í Finnlandi 

Fjóla segir vandann vera undirliggjandi skort á leikskólakennurum, en um 1.300 leikskólakennara hefur vantað í nokkur ár. Stöðurnar hafa verið mannaðar með ófaglærðu fólki eða fólki með aðra háskólamenntun. Hún segir það fólk einfaldlega vera að fá betri laun annars staðar og þá skili sér því síður inn í leikskólana.

Hún þvertekur fyrir að lenging leikskólakennaranáms úr þremur árum í fimm, árið 2011, hafi aukið á vandann. „Ásókn í kennaranám er alþjóðlegt vandamál, en ekki bundið við Ísland. Það er einni þjóð sem gengur vel að fá fólk í kennaranám, það er Finnum. Þar er virðing borin fyrir kennarastarfinu og launin hærri, en námið er á meistarastigi eins og hjá okkur. Virðingin í samfélaginu er einfaldlega meiri.“

Fjóla segir vandamálið vera undirliggjandi skort á leikskólakennurum.
Fjóla segir vandamálið vera undirliggjandi skort á leikskólakennurum. mbl.is/Ómar

Félag leikskólakennara hefur unnið ötullega að því síðustu ár að fjölga leikskólakennurum, til dæmis með því að hvetja fólk til náms og jafnframt veita styrki. „Það sem við höfum verið að gera hefur virkað, en betur má ef duga skal. Ábyrgðin er að sjálfsögðu líka hjá sveitarfélögunum sem stýra málaflokknum. Þeir verða að taka sig á þar.“

Eina í stöðunni er að fjölga ekki börnum

Fjóla segir þessa miklu manneklu skapa mikið álag á þá leikskólakennara og starfsfólk sem nú starfar á leikskólunum. Sem hafi slæm áhrif á starfsánægjuna. „Þar sem gengur illa að manna er mikið álag á leikskólakastjórum og leikskólakennurum. Það eina í stöðunni er auðvitað að fjölga ekki börnum. Það er ekki hægt að taka inn börn ef það er ekkert starfsfólk. Ég held líka að foreldrarnir myndu ekki vilja það. Það verður að hafa lokaðar deildir á meðan enginn er til að starfa þar.“

Hún segist ekki hafa hugmynd um það hvort ástandið komi til með að skána á næstunni. Hvort það verði hægt að ráða í einhverjar þær stöður sem eru lausar fyrir haustið. „Ferðamannastraumurinn er í hámarki núna og verður alveg til mánaðamóta. Hvort það fer þá að rýmkast um og fólkið sem starfar í ferðaþjónustunni sækir um, ég veit það ekki. Það þarf einfaldlega að hækka laun til að fá fólk. Ef þú ert í samkeppni við aðra atvinnustarfsemi þá hlýtur þú að þurfa að hækka launin til að fá einhvern í vinnu.“

Þarf framtíðarsýn með bættu starfsumhverfi

Launakjörin er þó ekki það eina sem þarf að bæta, heldur einnig starfsumhverfið, að sögn Fjólu. „Það er að störfum starfshópur fjallar um starfsaðstæður í leikskólum Reykjavíkur. Sá hópur ætti að skila af sér í september og vonandi kemur eitthvað bitastætt út úr þeirri vinnu. Eitthvað sem við getum séð til framtíðar. Það er það sem við þurfum.“

Fjóla segir vissulega þurfa skammtímalausnir líka til að fá fá fólk til starfa núna, en það sé ekki nóg. Það verði að koma til einhver framtíðarsýn með bættu starfsumhverfi.

Misjafnt er eftir sveitarfélögum hvernig gengið hefur að manna stöður á leikskólum, en Fjóla segir kannanir sýna að starfsfólk í leikskólum í Kópavogi sé ánægðara en í Reykjavík. Þar er engu að síður einnig skortur á starfsfólki, en ástandið er ekki jafn slæmt og í borginni. „Starfsaðstæðurnar þar eru greinilega betri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert