Óvenju mikil aðsókn í Kvennaathvarfið

Meðalfjöldi í húsinu á hverjum degi hefur aldrei verið meiri.
Meðalfjöldi í húsinu á hverjum degi hefur aldrei verið meiri. mbl.isÓmar Óskarsson

Óvenju mikil aðsókn hefur verið í Kvennaathvarfið það sem af er ári. Á fyrri helmingi ársins dvöldu 81 kona og 60 börn í athvarfinu. Til samanburðar dvöldu þar 116 konur og 79 börn allt árið í fyrra.

Eins og greint var frá fyrr á árinu dvöldu konur að meðaltali í 28 daga í athvarfinu á síðasta ári og hefur meðaldvöl aldrei verið lengri. Meðaldvölin lengist hins vegar enn, en á fyrstu sex mánuðum ársins dvöldu konur að meðaltali í 30 daga í athvarfinu og börn í 31 dag.

Í þessum hópi voru 20 íbúar; 9 konur og 11 börn, sem ekki hafa enn útskrifast og því er dvöl þeirra orðin talsvert lengri en hún var í lok júní. 

Meðalfjöldi í húsinu á hverjum degi aldrei verið meiri

Á fyrri hluta ársins dvöldu að meðaltali 23 íbúar í húsinu á hverjum degi, 13 konur og 10 börn. Þetta meðaltal hefur aldrei verið hærra, en árið 1994 voru að meðaltali 20 íbúar í húsinu á dag. Önnur ár hafa þeir verið talsvert færri, en sem dæmi voru að meðaltali 18 íbúar í húsinu á dag í fyrra; 9 konur og 9 börn.

Ellefu börn eru í húsinu í dag.
Ellefu börn eru í húsinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi mikli fjöldi íbúa skýrist bæði af því að fleiri konur en áður leituðu til athvarfsins á fyrri hluta ársins og því að konur dvelja lengur, einkum vegna þess að þær eiga erfitt með að komast í nýtt húsnæði,“ segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.

Í nýlegum framkvæmdum í athvarfinu var svefnherbergjum fjölgað úr 8 í 11.

Ráðgjafar úr Kvennaathvarfinu eru með fasta viðveru í Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, einn morgun í viku og taka viðtöl við konur sem þangað hafa leitað vegna heimilisofbeldis. Samkvæmt upplýsingum frá Kvennaathvarfinu er hins vegar ekki hægt að rekja aukinn fjölda kvenna í dvöl beint til opnunar Bjarkarhlíðar.

Eins og mbl.is greindi frá í vikunni komu hátt í fimmtíu of­beld­is­mál inn á borð Bjark­ar­hlíðar í júlí. Aldrei hafa fleiri mál komið inn á borð miðstöðvar­inn­ar á ein­um mánuði, frá opn­un henn­ar í mars. Af mál­un­um fimm­tíu fóru um fjör­tíu inn á borð lög­reglu.

Frétt mbl.is: Met­fjöldi til bráðamót­töku í júlí

Eins og greint var frá á dög­un­um kom einnig met­fjöldi mála á ein­um mánuði á borð neyðar­mót­töku fyr­ir þolend­ur kyn­ferðisof­beld­is í júlí, þegar tutt­ugu og átta manns leituðu þangað. Sam­tals hef­ur 41 ein­stak­ling­ur leitað til neyðar­mót­tök­unn­ar í júní og júlí, og 110 það sem af er ári. Í fyrra leituðu fleiri en nokkru sinni á neyðar­mót­tök­una, en þá voru 169 kom­ur skráðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert