Pennavinkona Plummers

Norma Norðdahl
Norma Norðdahl Árni Sæberg

„Ævintýrið byrjaði þannig að ég sat hérna inni í stofu og lét mér leiðast. Ég sagði svona við sjálfa mig; „Finnst þér þetta eitthvað voðalega skemmtilegt, Norma? Að sitja hérna og láta þér leiðast? Gerðu nú eitthvað.“ Svo fékk ég hugmynd. Af hverju ekki bara að senda Christopher Plummer hljómplötu?“ segir Norma Norðdahl, 82 ára gamall Kópavogsbúi sem í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins segir frá litríku lífi.

„Ég hringdi í tengdadóttur mína og hún hvatti mig. „Gerðu þetta bara, ég hjálpa þér. Gerðu allt sem þér dettur í hug, alltaf,“ sagði hún. Svo að ég skellti mér í bæinn og keypti geisladisk með Víkingi Heiðari Ólafssyni, hann hélt ofsalega fína tónleika sem fengu mjög góða dóma og voru svo gefnir út á plötu. Ég hugsaði með mér; Bingó! Þetta sendi ég Christopher Plummer. Hann er nefnilega píanisti, ætlaði sér alltaf að verða konsertpíanisti.

Úr bókaskápnum mínum tók ég svo tvær eldgamlar bækur. Víkingana eftir Ibsen, en þá bók átti faðir minn, ofsalega falleg bók í leðri frá 1889 og ljóð Hannesar Hafsteins. Ég pakkaði þessu í voðalega fallegan pappír með hvítri slaufu og skrifaði honum að þetta væri sent í þakklætisskyni fyrir allar þær ánægjustundir sem hann hefði gefið gamalli konu heima hjá sér með myndunum sínum.“

Kanadíski leikarinn Christopher Plummer heillaði heiminn fyrst sem Von Trapp …
Kanadíski leikarinn Christopher Plummer heillaði heiminn fyrst sem Von Trapp fjölskyldufaðirinn í Sound of Music.

„Elsku Norma,“ byrjar bréfið og Plummer þakkar henni kærlega fyrir plötuna og íslenskar bækur sem hún sendi honum og bréfið. Hún sé „algjörlega allt of elskuleg“ við sig.

„O, ég er það nú ekkert alltaf,“ segir Norma svona hálfpartinn við sjálfa sig og nær í fat hlaðið pönnukökum. Hún er að sjálfsögðu búin að svara Plummer og þakka fyrir bréfið.

Norma veit hreinlega allt um Plummer eins og vel kemur fram í viðtalinu.

Hefurðu gert eitthvað svona álíka áður?

„Nei, veistu að þótt ég sé nú heilmikill bóhem í mér hefur lífið ekki boðið mér upp á það – að gera einhverja svona bommertu, manneskju sem fór að eiga börn og eiginmenn 16 ára gömul.“

Ekki vera með báða fætur á jörðinni

Norma er barn einstæðrar móður í Reykjavík. "Og skírð þessi nafni, Norma, sem mér fannst alveg óskaplegt nafn þegar ég var barn.“

Af hverju óskaplegt?

„Það hét engin Norma á Íslandi. Svo varð ég fyrir þeim ósköpum að vera eldrauðhærð, græneygð og freknótt og var mjög mikið strítt.“ Nafnið kemur úr bíóferð.

„Frænka mín sagði við móður mína; „Heyrðu, Halla, við erum ekkert að skíra hana í höfuðið á einhverjum, við förum bara og skírum hana einhverju fallegu nafni. Förum í bíó.“ Og þær fóru í bíó, amma passaði, á mynd með Normu Shearer, óskaplega fallegri leikkonu sem lék í þöglu myndunum. Ég var skírð Norma daginn eftir. Svo var pabbi minn Norðdahl og ég ekki hjónabandsbarn. Þá tíðkaðist ekki að lausaleiksbörn tækju ættarnöfn feðra sinna svo að mamma skírði mig því nafni bara.“

Segðu mér aðeins frá uppvextinum.

„Fyrstu sex ár ævi minnar bjó ég hjá móður minni, Höllu Sigmarsdóttur, en svo var ég svolítið milli fólks. Sex ára var ég sett til föðursystur minnar og var hjá henni á daginn en á kvöldin gekk ég til ömmu minnar og svaf í herbergi hennar á bedda. Þetta var því svona tvískipt, var ég einum stað á daginn og öðrum á nóttunni. Á kvöldin sagði amma mér sögur af fullorðnu fólki; barneignum, framhjáhöldum og fylleríi Norðdahlsfjölskyldunnar og ég drakk þær í mig. Mér fannst mikið tilhlökkunarefni að fara upp í rúm á kvöldin og sofna út frá þessum sögum.

12 ára gömul fór ég til föður míns; Magnúsar G. Norðdahl, sem ég þekkti ekki neitt en hann bjó í Hveragerði. Þá var listamannalífið í bænum blómlegt en íbúar voru annaðhvort garðyrkjumenn eða listamenn, sem sagt sjálfstæðismenn eða kommúnistar, og það var óskaplega gaman. Hann var múrari með kellingu og börn, ofboðslegur bóhem og hugsaði ekki um neitt nema sjálfan sig.“

„Pabbi var mjög sérkennilegur persónuleiki. Dansaði eins og Fred Astaire, drakk sitt brennivín, elti kellingar en las heimsbókmenntirnar og kunni klassíska tónlist út og inn. En hann var svo sjálfselskur, úff.“

Hefurðu bóheminn í þér frá honum?

„Það er talsvert af þeim í þessari Norðdahlsfjölskyldu, þótt sumir séu á jörðinni og standi í báða fætur. En veistu, maður á ekki að standa nema í annan fótinn. Maður á að vera með hinn einhvers staðar annars staðar, í skemmtilegheitum.“

Að ættleiða var stærsta ákvörðun sem ég hef tekið, þetta …
Að ættleiða var stærsta ákvörðun sem ég hef tekið, þetta með Christopher Plummer, það var bara della!“ Árni Sæberg

Ákvað sem unglingur að ættleiða

Æska Normu hafði mikil áhrif á framtíðarákvarðanir hennar.

„Þegar ég var barn og foreldrar mínir ekki til taks endaði ég á að vera svolítið á milli fólks. Maður var settur á barnaheimili á hverju einasta sumri frá unga aldri, eins og reyndar margir gerðu þótt það væru hjónabandsbörn, en maður grenjaði sig þar í hel hér um bil. Upp úr páskum fór maður að kvíða fyrir að fara á nýtt barnaheimili. Mér leiddist það sérstaklega því ég er óskaplega vanaföst. Svo í eitt skipti þegar ég kom af einu barnaheimilinu að hausti kom ég ekki heim til mömmu heldur var farið með mig til Huldu systur pabba og þar var ég skilin eftir í sex ár og fór til ömmu á kvöldin.

Þarna var þó sennilega mesta öryggið sem ég hafði haft í lífi mínu. Þar var reglusemi, gott að borða og ég var alltaf voða fínt klædd.

En eins og oft var í gamla daga, þar sem öllum ytri þörfum var sinnt, skorti á að sinna þeim innri. Það vantaði þessi tilfinningatengsl. Tíðarandinn var þannig að maður var skammaður fyrir það sem maður gerði illa en aldrei hælt fyrir það sem vel var gert. Þegar ég er send til pabba ákveð ég það með sjálfri mér að þegar ég yrði stór ætlaði ég einhvern tímann að taka barn sem enginn vildi eiga og sanna það ekki aðeins fyrir mér heldur umheiminum að maður getur elskað barn þótt maður eigi það ekki sjálfur. Svo bara beið ég færis.“ Þegar það tækifæri kom var Norma 38 ára.

„Ég var þá sjálf búin að ganga með þrjú börn, Magnús, Hallgrím og Berglindi, sem öll voru orðin um og yfir tvítugt. Við fengum mynd af suður-kóreskri stúlku í desember og hún var komin til okkur um vorið, hlaut nafnið Ragna Margrét. Hún var tveggja ára og átti enga aðstandendur sem vitað var um, fannst úti á götu. Hún var altalandi á kóresku en var svo skelfingu lostin að hún notaði tungumálið ekkert heldur þagði bara. Á fimmta degi, við vorum þá tvær einar, brosti hún skyndilega, ég gleymi aldrei þessu brosi. Eftir sex vikur var hún altalandi á íslensku. Afskaplega falleg og dugleg.

Veistu, við þurfum ekkert að framleiða börn hérna heima, það er nóg til af þeim, þau eru komin. Að ættleiða var stærsta ákvörðun sem ég hef tekið, þetta með Christopher Plummer, það var bara della!“

Skemmtilegast að vera milli manna

Norma segir einnig frá því í viðtalinu hvernig hún annaðist fyrrverandi eiginmann sinn á banalegu hans eftir að hvorki hún né börnin höfðu séð hann í 20 ár.

„Hann setti bara kross yfir liðið, fór og hætti alveg að skipta sér af börnunum og svo ekki söguna meir. Og hann hafði verið alveg einstakur heimilisfaðir og pabbi, góður og ljúfur.“

20 árum síðar, þegar Norma var búin að vera ekkja í nokkur ár eftir seinni mann sinn, frétti hún úti í bæ að fyrri eiginmaður hennar væri fárveikur, jafnvel nær dauða en lífi.

„Ég sagði við eldri strákinn minn; „Ég frétti að pabbi ykkar hefði fengið heilablæðingu, hann er kannski bara dáinn. Þið verðið að finna hann og athuga hvað er með hann.“ Sonur minn fann hann á Borgarspítalanum en þá var hann búinn að vera þar í þrjár vikur, meðvitundarlaus eftir heilablæðingu en var kominn á ról. Ég fæ að vita að það sé skelfilegt að sjá hann, hvorki með inniskó né slopp.

„Hvað segirðu,“ sagði ég, „það þarf eitthvað að bæta úr því.“

Svo leið smá tími og þá kom Maggi sonur minn til mín og sagði; „Mamma, ég er að fara til pabba, kemurðu ekki bara með mér?“ Ég og systir mín vorum að fá okkur smá hvítvín í stofunni, ég fann aðeins á mér svo að ég sagði; „Já, ég kem bara.“ Honum brá svo mikið að sjá mig að ég má þakka guði fyrir að hann hafi ekki fengið slag. En ég settist hjá honum og talaði við hann í klukkustund og lét svo Magga fara með inniskó og slopp af pabba mínum, en þeir höfðu verið miklir vinir.“

„Börnin heimsóttu hann öll, og voru að sjá hann eins og ég í fyrsta sinn í 20 ár. Þetta kom starfsfólkinu á óvart því hann hafði ekki fengið neinar heimsóknir og svo fór bara heil fjölskylda allt í einu að koma. Hann fékk svo fljótlega pláss á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð.

Hann kom hingað á aðventunni til að fá jólakökur, settist bara hér í stólinn sinn sem hann hafði setið í þegar við vorum gift. Svo sagði hann einu sinni við mig: „Elsku Norma mín, ég á þetta ekki skilið. Börnin mín, ég hef ekki skipt mér af þeim í 20 ár. Af hverju er þetta svona?“ Þá sagði ég; „Veistu það, Siggi minn, þú varst svo góður pabbi að þú lagðir inn fyrir þessu. Það snjóar yfir allt.“ Við jörðuðum hann með reisn þegar hann dó. Svona geta hlutir orðið fallegir, þeir þurfa ekki endilega að vera hefnigirni og ljótt,“ segir Norma.

"Nú er ég náttúrulega aftur á milli manna og vona að ég sé það til æviloka!“ Árni Sæberg

„Það er svo skrýtið þegar maður hugsar um lífið. Það að lenda í skilnaði er auðvitað erfitt en að vera á milli manna er bara yndislegt! Skilnaður grær og þegar maður er allt í einu á milli manna fer maður að gera eitthvað sem mann langar til sjálfan. Við vinkonurnar drusluðumst í göngur og ég sem aldrei hafði drukkið vín fór allt í einu að drekka hvítvín milli 5 og 7 á daginn, 47 ára gömul, fór á Mímisbar og hafði gaman. Þá datt mér svona ýmislegt í hug og framkvæmdi. Ég hef ekki gert mikið af því að fá mér í tána kannski en nóg til þess að mér finnist það gaman.

Svo tók þetta tímabil bara enda. Þessi ást sem dettur yfir mann eins og flensa, maður giftir sig aftur og hættir að vera svona skemmtilegur,“ segir Norma, en árið 1983 giftist hún Bjarna S. Bjarnasyni, sem lést árið 1997 og hefur Norma verið ekkja síðan.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur gert, Norma?

„Að vera á milli manna! Með mínum vinkonum, upplifa það sem ég gerði. Svo hef ég átt yndislega tíma í litlum sumarbústað á Mýrum sem heitir Kattholt en við byggðum hann frá grunni. Þetta er bara pínulítill bústaður, með einu útiljósi og einu inniljósi og ekkert meir, og þar hafa gerst rosalega ævintýri. Bæði meðan Bjarni var lifandi en ekki minna eftir að hann dó. Því nú er ég náttúrulega aftur á milli manna og vona að ég sé það til æviloka!“

Viðtalið í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert