Umferð færð yfir á nýtt hringtorg

Reykjanesbær.
Reykjanesbær. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Breyting verður gerð á umferðarskipulagi á Reykjanesbraut við Aðalgötu í Reykjanesbæ í dag. Umferð um Reykjanesbraut verður færð yfir á nýtt hringtorg og Aðalgata verður lokuð tímabundið í um það bil tvær vikur.

Vegagerðin greinir frá þessu.

Ökumönnum er bent á hjáleið yfir á Þjóðbraut eða að aka um Garðaveg.

Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. Vinnusvæðin eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.

Mikil umferð um Múlagöng

Búast má við mikilli umferð um Múlagöngin um helgina og einhverjum umferðartöfum. Lögregla verður á staðnum og mun stýra umferð þegar þurfa þykir.

Vegfarendur eru beðnir að taka tillit til þess og sýna þolinmæði, að því er kemur fram hjá Vegagerðinni.

Framkvæmdir á Reykjanesbraut og Krýsuvíkurvegi

Unnið er við mislæg vegamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar í Hafnarfirði. Umferð fer á kafla um hjáleið á Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar. Leyfður umferðarhraði þar er 50 km á klukkustund. Vegna sprenginga þarf að stöðva umferð á Reykjanesbraut í skamman tíma, allt að þrisvar sinnum á dag.

Einnig er verið að byggja nýtt hringtorg á  Krýsuvíkurvegi (42). Um er að ræða gatnatengingar að Dofrahellu og Ásvallabraut (Klukkutorg).  Í upphafi verður unnið meðfram Krýsuvíkurvegi (42) og síðar í sumar verður umferð færð yfir á hjáleið við hlið framkvæmdasvæðis.

Gert er ráð fyrir að hringtorgið verði tekið í notkun 1. september næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert