Varð heimsmeistari í keðjusagarfrisbí

Feðgarnir Einar Óskarsson og Óskar Grönholm fagna hér sigri að …
Feðgarnir Einar Óskarsson og Óskar Grönholm fagna hér sigri að keppni lokinni. Ljósmynd/Óskar Grönholm

Óskar Grönholm skógvélamaður fór með sigur af hólmi í keppni í keðjusagarfrisbíi sem haldin var í Svíþjóð á dögunum. Faðir hans, Óskar Einarsson, sem er starfsmaður Skógræktar ríkisins, átti næstlengsta kastið. Er þetta í fyrsta skipti sem keppt er í keðjusagarfrísbíi og má því segja að Óskar sé heimsmeistarinn í þessari nýju íþrótt.

Keppnin fór fram á ElmiaWood-skógarvörusýningunni sem haldin er fjórða hvert ár í Svíþjóð. Eins og áður sagði er þetta í fyrsta skipti sem keppt er í greininni, sem kallast „lumberjack frisbee“ á ensku og felst í því að skjóta viðarsneið eins langt og mögulegt er með keðjusög að vopni.

Óskar kveðst í samtali við mbl.is ekki hafa æft íþróttina áður. „Þeir voru með svona keppni þarna, það kostaði einhverjar hundrað sænskar krónur að taka þátt, sem að við gerðum og unnum svo bara,“ segir hann.

Trikkið að gefa í og þrykkja svo

Fjallað er um afrek feðganna á vef Skógræktar ríkisins og vísað í frásögn á vefnum forestry.com. Þar segir að biðröð hafi verið við bás Skogsforum alla sýningardagana og að rúmlega 200 manns hafi fengið að reyna sig í keðjusagarfrisbí.

„Á kastvellinum voru strik sem mörkuðu vegalengd allt að 35 metrum sem virtist meira en nóg, allt þar til íslenski skógvélamaðurinn Óskar Grönholm kom, sá og sigraði,“ segir í fréttinni.

Óskar með verðlaunin sem voru ekki af verri endanum. Keðjusög …
Óskar með verðlaunin sem voru ekki af verri endanum. Keðjusög ásamt öllum nauðsynlegum öryggisbúnaði. Ljósmynd/Óskar Grönholm

Óskar hafi hins vegar náð að skjóta viðarkringlunni 38 metra og sá sem næst hafi komist þeirri vegalengt hafi verið faðir hans, Einar Óskarsson, sem skaut nokkrum metrum skemur. Það sé því greinilegt að Íslendingar séu ekki bara góðir í fótbolta.

Að sögn Óskars fengu þeir feðgar góðar leiðbeiningar, auk þess sem þeir fundu síðan hjá sér réttu tæknina. „Trikkið var að gefa nógu mikið í með keðjusöginni og síðan þrykkja henni eins fast og maður gat. Þannig náðum við svona góðum árangri,“ segir Óskar.

„Síðan hitti maður eina [viðarskífu] alveg hrikalega vel.“

Veit ekki hvort hann ver titilinn

Óskar starfar í verktakavinnu við að höggva og ryðja skóglendi hér heima. Hann kveðst ekki gera mikið af því að nota keðjusög við verkið nú orðið. „En maður hefur alveg notað hana áður. Nú orðið, þegar maður er kominn á stórar vélar, þá nennir maður því hins vegar varla lengur.“

Hann er þó sáttur við verðlaunin sem hann fékk fyrir lengsta kastið. Husquarna keðjusög sem ætluð er atvinnumönnum, öryggisgalla og skó, þannig að hann getur haldið áfram að æfa sig heima.

„Þetta var góður pakki,“ segir Óskar, sem enn hefur ekki ákveðið hvort hann muni reyna að verja titilinn þegar næsta keppni verður haldinn.

Á vef forestry.com segir að höfundur keðjusagarfrisbísins sé Fredrik Reuter, rekstraraðili vefjarins, sem hafi fengið hugmyndina að þessu nýja sporti eitt sinn er hann grisjaði skóg með kjarrsög. Þá hafi hann stundum fengið smá viðarbúta sem skutust af sagarblaðinu í sköflunginn af miklu afli. Sú hugmynd hafi þá hvarflað að honum að nota mætti kraft keðjusagarinnar í eitthvað skemmtilegt, jafnvel einhvers konar keppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert