Fann heila mús í maga urriða

Magainnihaldið kom nokkuð á óvart.
Magainnihaldið kom nokkuð á óvart. ljósmynd/Þorkell Heiðarsson

Þorkeli Heiðarssyni brá nokkuð í brún þegar hann slægði urriða sem hann veiddi í lítilli á í Ísafjarðardjúpi á dögunum. Í maga fisksins var hagamús, sem hann virðist hafa gleypt í heilu lagi.

„Það bara beit á og upp kom kvikindið. Þegar ég fór svo að slægja hann kom þessi mús út úr kokinu á honum,“ segir Þorkell í samtali við mbl.is. Bætir hann við að það sem einna helst hafi vakið athygli hafi verið hversu heilleg músin var.

Grimmur fiskur sem étur allt sem hann kemst í 

Þorkell birti mynd af urriðanum og músinni á Facebook-síðu sinni í vikunni þar sem hann sagðist hafa veitt þennan væna birting, en magainnihaldið hafi komið nokkuð á óvart. Töluverð umræða skapaðist um matarvenjur urriða undir myndinni, þar sem meðal annars var bent á að vel þekkt sé að urriðar éti andarunga.

„Urriðar éta allt sem þeir komast í,“ segir Þorkell, og bendir á myndband sem birt var í fréttum í fyrra af urriða að éta andarunga. Er urriði þekktur fyrir að vera grimmur ránfiskur sem étur hann allt sem hann ræður við.

Þá veltu margir því fyrir sér hvernig fiskurinn komst í tæri við músina. Einn velti því upp hvort fugl hafi misst bráð sína í ánna, annar benti á að hagamýs geti synt og Þorkell sjálfur velti því upp hvort áin hafi grafið út holu og drekkt músinni. Ekki er ljóst hverjar raunir músarinnar hafa verið, „en mýs ættu greinilega ekki að gera það að gamni sínu að leggjast til sunds,“ segir Þorkell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert