Fer stafrænt maraþon sem broddgöltur

Kristinn Ólafur Smárason ásamt syni sínum.
Kristinn Ólafur Smárason ásamt syni sínum. Ljósmynd/Kristinn Ólafur Smárason

Undirbúningur fyrir Reykjavíkurmaraþonið stendur nú sem hæst enda maraþonið á næstu grösum. Misjafnt hafast mennirnir að en Kristinn Ólafur Smárason sker sig líklega mest úr við undirbúninginn, með því að spila í gegnum tölvuleikina Sonic The Hedgehog eitt, tvö og þjú.

Ótrúlegt en satt þá mun sá undirbúningur koma að góðum notum í maraþoninu þar sem Kristinn ætlar að hlaupa maraþonið stafrænt sem broddgölturinn frái, Sonic, í gegnum ævintýraheimi tölvuleikjanna þriggja.

„Ég býst við að þetta taki um sex til sjö klukkustundir,“ segir Kristinn Ólafur í samtali við mbl.is en leikjamaraþonið spilar hann til styrktar Barnaspítala Hringsins. Hann hvetur aðra til að fara að fordæmi sínu en þó ekki þannig að fólk hætti að hlaupa með öllu. „Ég hvet alla sem vilja til að gera eitthvað svona frekar en að gera ekki neitt, það er gott að leggja góðu málefni lið.“

Stafræna maraþonið kallar Kristinn Retrothon.
Stafræna maraþonið kallar Kristinn Retrothon. Ljósmynd/Kristinn Ólafur Smárason

Kristinn mun sýna frá maraþoninu í beinni útsendingu í gegnum streymissíðuna Twitch TV og greinir hann einnig frá undirbúningi maraþonsins á Facebook-síðu Retrólífs, netverslunar sem hann rekur. Þar verður einnig hægt að finna tengil á streymið þegar maraþonið hefst.

„Ég fylgdist með vinunum skrá sig í maraþonið en ég er ekki mikill hlaupari sjálfur. Ég hef alltaf haft áhuga á gömlum tölvuleikjum og mér datt þetta í hug. Þetta passar allt svo vel saman, Sonic er hlaupari en ég er það ekki,“ segir Kristinn. 

Um 15 til 20 ár eru síðan hann spilaði leikina síðast en hann spilar þá á Sega Mega Drive leikjatölvuna. „Ég er að spila í gegnum þá til að tryggja að ég geti klárað þá. Ég er búinn að spila í gegnum fyrstu tvo en á eftir þriðja. Ég býst við að ég þurfi ekki of mikla æfingu en ég er aðeins að grípa í stýripinnann.“

Hér má heita á Kristinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert