Andlát: Sverrir Vilhelmsson

Sverrir Vilhelmsson
Sverrir Vilhelmsson

Sverrir Vilhelmsson fréttaljósmyndari lést á Landspítalanum við Hringbraut 14. ágúst tæplega sextugur að aldri.

Sverrir fæddist í Reykjavík 18. september 1957 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru þau Ólína Guðbjörnsdóttir húsfreyja og Vilhelm Kristinsson, deildarstjóri hjá Sjóvá.

Eftir grunnskóla hóf Sverrir vinnu við bensínafgreiðslu. Hugur hans beindist snemma að bílaíþróttum og lét hann að sér kveða í árdaga Kvartmíluklúbbsins.

Hann fékk mikinn áhuga á ljósmyndun og fór að taka ljósmyndir sem hann seldi Tímanum. Sverrir var ráðinn ljósmyndari á Tímanum 1984. Hann hóf störf á ljósmyndadeild Morgunblaðsins vorið 1987 og starfaði þar til 2008 að hann lét af störfum vegna heilsubrests. Starfinu fylgdu ferðalög, oft til átakasvæða heimsins svo sem í Bosníu og víðar. Einnig þangað sem náttúruhamfarir höfðu orðið eins á Flateyri 1995. Sverrir var fjölhæfur ljósmyndari, tók þátt í sýningum blaðaljósmyndara og vann þar til verðlauna.

Sverrir tók ástfóstri við Taíland og fólkið í því landi. Hann var meira og minna búsettur í Bangkok um árabil. Seinustu árin var hann búsettur jöfnum höndum í Bangkok og í Keflavík.

Eftirlifandi eiginmaður Sverris er Wanlop Noimor.

Við leiðarlok þakkar Morgunblaðið Sverri fyrir vel unnin störf og sendir ástvinum hans samúðarkveðju.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert