Bagalegt að biðlistar séu langir

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er mjög bagalegt að langir biðlistar eftir afplánun í fangelsum landsins leiði til þess að dómar fyrnist. Þeir dómar sem fyrnast eru þó jafnan dómar fyrir smávægilegustu brotin enda er allt kapp og áhersla lögð á að þeir afpláni sem gerst hafa sekir um alvarlegustu brotin. Þetta segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is.

Aftur á móti hafi heimildir til afplánunar utan fangelsis verið auknar sem til lengri tíma litið ætti að leiða til þess að það gangi á biðlista að sögn ráðherra.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Fang­els­is­mála­stofn­un bíða nú um 560 dómþolar eft­ir að vera boðaðir í afplán­un en sökum skorts á fangavörðum er ekki hægt að fullnýta afköst fangelsisins á Hólmsheiði. Þá þurfti að loka einu fangahúsi á Litla-Hrauni í sumar vegna framkvæmda.

Að sögn ráðherra kemur lengd biðlistans þó ekki á óvart en margir þættir spili þar inn í. Meðal annars hafi málafjöldi aukist verulega eftir hrun og refsirammi hafi verið þyngdur, til að mynda fyrir fíkniefnabrot, sem hefur í för með sér að afplánun tekur lengri tíma. Þá sé sjálfkrafa 30 daga fangelsisdómur við því að koma hingað til lands á fölsuðum skilríkjum en með tíðari heimsóknum útlendinga hingað til lands hafi slíkum dómum fjölgað.

560 einstaklingar bíða þess að hefja afplánun í fangelsum landsins.
560 einstaklingar bíða þess að hefja afplánun í fangelsum landsins. mbl.is/Brynjar Gauti

„Það eru margir þættir í þessu en þetta er ekki eitthvað sem að minnsta kosti fangelsismálayfirvöld meta að sé óyfirstíganlegt heldur er verið að vinna í þessu hægt og rólega. Eins og kom fram í fréttum í gær að þá helgast það líka af því að það er veri að taka fangelsið í gegn á Hrauninu sem var löngu tímabært og þurfti að gera og þá auðvitað er ekki hægt að fullnýta öll plássin,“ segir Sigríður. 

Stjórnvöld bundin af fjárlögum

Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Páll Winkel fangelsismálastjóri að búið sé að skera niður eins og hægt er hvað varðar starfsmannamál í fangelsiskerfinu en til þess að unnt sé að fullnýta afköst nýja fangelsisins á Hólmsheiði þyrfti að fjölga starfsmönnum.  

„Við erum auðvitað bara bundin við fjárlög og fjármálaáætlun og fangelsismálayfirvöld verða bara að forgangsraða því fé sem að þau hafa,“ segir Sigríður, spurð hvort ráðuneytið hyggist bregðast með einhverjum hætti við vegna þessa.  „Það eru allir sammála um að þetta er ekki nógu góð staða, svona langur biðlisti,“ bætir hún við.

Aðspurð hvort til greina komi að veita auknu fé til fangelsismála vegna þessa segir Sigríður það ekki hafa komið til umræðu. „Það er auðvitað þingsins. Ef að þingið vill leggja áherslu á það að þessi mál séu í forgangi þá er það auðvitað þingsins að ákveða aukið fé í þetta,“ segir hún.

Auknar heimildir til afplánunar utan fangelsa

Þá bendir Sigríður á að með breytingum á lögum um fullnustu refsinga hafi svigrúm og heimildir verið auknar til afplánunar utan fangelsa, meðal annars með rafrænu eftirliti og samfélagsþjónustu. Það komi væntanlega til með að létta á fangelsum og eigi ef til vill eftir að verða til þess að biðlisti styttist þegar fram líði stundir.

mbl.is/Brynjar Gauti

„Eitt mitt fyrsta verkefni sem ráðherra það var að tryggja nokkuð aukið fé í að endurnýja samning við Vernd. Fangelsismálastofnun hefur lengi verið í mjög góðu samstarfi við Vernd og það var kominn tími á að endurnýja þann samning,“ nefnir Sigríður sem dæmi. Búið sé að tryggja til þess fé í fjárlögum næsta árs auk þess sem gert sé ráð fyrir því í fjármálaáætlun.

Vissulega beri þó að huga að því að þetta geti haft það í för með sér að samsetning fanga sem afpláni í fangelsum breytist og hlutfall þeirra sem sitja inni fyrir alvarleg brot kunni að hækka. Í samtali við mbl.is bendir fangelsismálastjóri á að þetta kunni einnig að auka álag á starfsfólk fangelsanna.

Undir það tekur Sigríður og segir að huga þurfi vel að þessum þætti og fylgjast vel með í samvinnu við fangelsismálayfirvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert