Bandarísk herþota til sýnis hjá Keili

Ljósmynd/Siggi Eiríks

Vegfarendur á Ásbrú ráku upp stór augu í dag þegar þeir sáu bandaríska herþotu á miðjum vegi í eftirdragi á eftir hvítum ISAVIA-pallbíl. Um er að ræða herþotu af gerðinni Phanton-F4 sem notaðar voru af Bandaríkjaher á árum áður.

Verið var að flytja vélina að aðal gatnamótum bæjarins þar sem Keilir mun koma henni á stall og hafa hana til sýnis í samvinnu við fyrirtæki á svæðinu. Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis á Ásbrú, segir að vélin sé í senn tákn fyrir þá starfsemi sem nú fari fram á vellinum en einnig sem söguleg heimild.

Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis.
Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis. mbl.is

„Þessi vél stóð lengi vel á sökkli fyrir framan skrifstofur kapteinsins hér á flugvellinum. Þegar varnarliðið fór tóku þeir megnið af sínu dóti en skildu þessa þotu eftir sem hefur staðið síðan í óupphituðu skýli,“ segir Hjálmar en það verður verkefni flugvirkjanemanna á Keili að hugsa um vélina og sýna henni þann sóma sem henni ber, segir hann.

Enginn mótor er í vélinni og er hún í eigu sögusafns bandaríska flughersins. „Við hjá Keili buðumst til þess í samstarfi við önnur fyrirtæki á svæðinu að koma henni aftur á stall og fengum til þess leyfi frá sögusafninu og nutum til þess aðstoðar bandaríska hersins,“ segir Hjálmar.

Hann segir að vélin muni standa þarna um ókomna tíð vonandi öllum til ánægju og yndisauka. Keilir mun standa fyrir formlegri athöfn á næstunni þegar flugvélin verður formlega tekin til sýnis.

Ljósmynd/Siggi Eiríks.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert