Lífæðin í ljósmyndabók

Starfsemi Skinneyjar-Þinganess á Höfn er að finna í myndum Portúgalans …
Starfsemi Skinneyjar-Þinganess á Höfn er að finna í myndum Portúgalans Pepe Brix. mbl.is/Pepe Brix

„Höfn í Hornafirði er byggðarlag sem á mikið undir því að sjávarútvegurinn gangi vel. Greinin er að því leytinu til lífæð samfélagsins og af því sprettur nafn bókarinnar,“ segir Hjalti Þór Vignisson hjá Skinney-Þinganesi hf.

Á síðasta ári voru sjötíu ár frá því að stofnað var til þess rekstrar sem nú heitir Skinney-Þinganes. Það er eitt af stærri sjávarútvegsfyrirtækum landsins, gerir út sjö skip og veitir um 300 manns atvinnu til sjós og lands.

Tugir ljósmynda úr fjölþættri starfsemi fyrirtækisins, sem portúgalski ljósmyndarinn Pepe Brix tók, eru í bókinni Lífæðin, sem Forlagið gefur út. Það var snemma á síðasta ári sem ljósmyndarinn portúgalski birtist austur á Hornafirði, en hann hefur lagt sig sérstaklega eftir því að skrá og mynda þorskveiðar á Norður-Atlantshafi. „Það var tilviljun að við skyldum hitta þennan snilling,“ segir Hjalti Þór.

Heimild til framtíðar

„Brix var hjá okkur í um það bil mánuð og fór fyrst á loðnu með einu skipa okkur, Ásgrími Halldórssyni SF, og seinna í netatúra með minni bátunum. Þá fylgdist hann með vinnslunni og annarri starfsemi og skyndilega var kominn stokkur um 2.000 mynda sem við sáum að væri fjársjóður. Af því spratt sú hugmynd að minnast þess að 70 ár væru liðin frá stofnun félagsins með útgáfu á bók, sem væri skemmtileg, fróðleg og mikilvæg heimild til framtíðar litið.“

Arnþóri Gunnarssyni sagnfræðingi, sem er frá Höfn í Hornafirði, var falið að skrifa texta bókarinnar – yfirlit á íslensku sem einnig er í enskri þýðingu. Þar er reifað hvernig kaupin gerðust á eyrinni og hvernig útgerðinni óx ásmegin. Starfsemi frystihúss á vegum kaupfélagsins, hafnarbætur og tilkoma netaveiða hleyptu lífi í tuskurnar. Sjávarútvegurinn efldist svo enn frekar þegar humarveiðar hófust í kringum 1960. Má í bókinni meðal annars finna myndir úr humarvinnslunni, en ímynd Hafnar er mjög tengd humrinum. Í bænum eru meðal annars starfandi veitingahús þar sem krabbafiskurinn sá er í öndvegi hafður og þykir alveg herramannsmatur.

Sjávarútvegurinn sé sýnilegur

„Ferðaþjónustan hefur verið mjög vaxandi atvinnugrein á Hornafirði á undanförnum árum og í atvinnulífinu hér um slóðir er hún orðin önnur meginstoðin. Hin er sjávarútvegurinn, sem þarf að vera sýnilegur, meðal annars ferðafólki sem vill kynnast atvinnulífi og staðháttum. Okkur finnst við því hafa slegið margar flugur í einu höggi með útgáfu þessarar bókar, sem við erum ánægð með,“ segir Hjalti Þór Vignisson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert