Meira sig en gert var ráð fyrir

Frá Akureyri.
Frá Akureyri. mbl.is/Hjörtur

„Við erum þarna að lenda í ófyrirséðum hlutum sem við áttum ekki von á. Það er meira sig í lóðinni en við áttum von á sem gerir það að verkum að við höfum ekki getað farið með skóflur í hana í sumar. En áformin eru að öðru leyti óbreytt. Þetta hliðrast bara til í tíma.

Þetta segir Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, í samtali við mbl.is en ekki hefur verið hægt að hefja framkvæmdir við nýtt hótel félagsins á svonefndum Drottningarbrautarreit í sumar vegna meira jarðsigs en gert hafði verið ráð fyrir. Framkvæmdir frestast því að mestu fram á næsta vor og reiknað með að hótelið verði opnað á vormánuðum 2020.

Heildarkostnaður er áætlaður rúmir tveir milljarðar en endanlegur kostnaður ráðist af því hver endanleg útfærsla verður. „Frumhönnun er lokið en síðan ræðst hvernig þetta verður hannað innandyra. Sá hluti er ekki hannaður að fullu og það verður ekki gert fyrr en líða fer á haustið. En eins og áður segir eru áformin að öðru leyti algerlega óbreytt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert