Reykjavík í 37. sæti í lífsgæðaúttekt

Reykjavík hefur stokkið upp um 15 sæti á tveim árum.
Reykjavík hefur stokkið upp um 15 sæti á tveim árum. Eggert Jóhannesson

Reykjavík er í 37. sæti yfir lífvænlegustu borgir heims ef marka má úttekt Economist. Hefur borgin stokkið upp um 15 sæti frá því árið 2015 er borgin sat í 52. sæti. Úttektin tekur til 140 borga um allan heim og mælir lífsgæði borgarbúa út frá fimm atriðum, stöðugleika, heilsugæslu, menningu og umhverfi, menntun og innviðum. Reykjavík kemur best út í flokkunum heilbrigðisþjónusta og menntun, en verst í menningar- og umhverfisflokknum.

Mebourne í Ástralíu trónir á toppi listans en á hæla hennar koma Vínarborg og Vancouver í Kanada. Topp tíu listinn er óbreyttur frá í fyrra en á hann rata einungis borgir frá Kanada, Ástralíu og Evrópu, meðal annarra Helsinki og Hamborg. Að sögn breska blaðsins Telegraph eiga borgirnar sem raða sér í toppsætin það til að vera meðalstórar borgir og í ríkum, strjálbýlum löndum.

Það kemur sjálfsagt fáum á óvart að Damaskus vermi botnsæti listans, en borgarastyrjöldin hefur leikið íbúa þessarar sögufrægu borgar grátt líkt og aðra Sýrlendinga. Stríðshrjáðar borgir einoka neðstu sæti listans, en þar má einnig finna Lagos, stærstu borg Nígeríu og Tripoli í Líbíu. Kænugarður er eina evrópska borgin í tíu neðstu sætum listans en borginni hrakar um 21% frá í fyrra samkvæmt mati greinenda Economist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert