98% telja barni sínu líða vel í leikskóla

Nýleg könnun meðal foreldra leikskólabarna sýnir að 98% foreldra telja að barninu þeirra líði vel í leikskólastarfinu og að barnið þeirra sé þar öruggt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þá finnst 87% foreldra góður aðbúnaður í leikskólanum og níu af hverjum tíu finnst þeir fá góðar upplýsingar um leikskólastarfið. Um 86% foreldra telja að barnið sé ánægt með matinn og 82% þeirra eru sjálfir ánægðir með þann mat sem barnið þeirra fær í leikskólanum.

Starfsfólk í skóla- og frístundastarfi ánægt í starfi

Þá kom fram í viðhorfskönnun meðal starfsfólks skóla- og frístundasviðs frá því í vor að flestum finnist vinnustaðurinn þeirra hafa góða ímynd og eru stoltir af honum. Þá benda niðurstöður til þess að starfsmenn séu á heildina litið ánægðir í starfi og líði vel í vinnunni. Starfsfólk hjá skóla- og frístundasviði telur sig einnig búa við starfsöryggi og upplifa sveigjanleika til að samræma starf og einkalíf.

Niðurstöður viðhorfskönnunarinnar sýna að fleira starfsfólki skóla- og frístundasviðs finnst ímynd vinnustaðarins góð samanborið við sambærilega könnun sem gerð var fyrir tveimur árum. 86% starfsfólks finnst vinnustaðurinn hafa góða ímynd og 88,5 % er stolt af vinnustaðnum sínum.

Ánægja með starfsanda eykst einnig milli ára, nær 88% starfsfólks finnst samstarfsfólkið miðla þekkingu sinni í meiri mæli en áður og að samvinna á vinnustaðnum sé góð. Þá benda niðurstöður könnunarinnar til þess að starfsmenn séu á heildina litið ánægðir í starfi, eða 85,6% þeirra, og líði vel í vinnunni, eða 87,0%.

85,7%  starfsfólks sviðsins telur sig búa við starfsöryggi og átta af hverjum tíu starfsmönnum telja sig hafa sveigjanleika til að samræma starf og einkalíf.

Könnunin náði til 8.121 starfsmanns. Alls bárust 5.226 svör og var svarhlutfallið því 64%.

Starfsstaðir skóla og frístundasviðs eru um 170;  leikskólar, grunnskólar, frístundamiðstöðvar,  frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, skólahljómsveitir, Námsflokkar Reykjavíkur og skrifstofa sviðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert