Dagvaran út úr veltuvísitölunni

Mikill vöxtur var í sölu á byggingavörum og húsgögnum í …
Mikill vöxtur var í sölu á byggingavörum og húsgögnum í júlí. mbl.is/Árni Sæberg

Rannsóknasetur verslunarinnar hefur nú hætt birtingu veltuvísitölu dagvöruverslana og nokkurra annarra flokka smásölu. Ástæðan er sú að aðilar með mikla markaðshlutdeild á smásölumarkaði hafa ákveðið að hætta miðlun á veltutölum sínum. Áfram verður þó haldið birtingu á veltuvísitölu byggingarvöru, húsgagna og áfengis, segir í tilkynningu frá Rannsóknasetrinu.

„Smásöluvísitalan hefur verið birt mánaðarlega frá stofnun Rannsóknaseturs verslunarinnar árið 2004. Frumkvæðið að birtingu smásöluvísitölunnar kom upphaflega frá verslunum í landinu og helsti tilgangurinn hefur allar götur síðan verið að veita verslunum aukið gagnsæi á mánaðarlega þróun í einstökum tegundum verslunar. Þar sem þessar forsendur hafa breyst er birtingunni sjálfhætt,“ segir í tilkynningunni.

Rannsóknasetrið leitar nú annarra leiða við öflun skammtímaupplýsinga um veltu verslunar eftir vöruflokkum.

Mánaðarleg veltuvísitala verður áfram birt í eftirtöldum vöruflokkum: Áfengisverslun, húsgögnum og byggingarvörum. Jafnframt í einstökum undirflokkum þessara vöruflokka, þ.e. sérverslunum með rúm og verslunum með skrifstofuhúsgögn auk sérverslana sem selja gólfefni.

Tilkynnt verður um birtingu í hverjum mánuði, en ekki með jafn ítarlegri greiningu og hingað til.

Byggingarvörur rokseljast en verðið lækkar lítið

Í yfirliti Rannsóknasetursins um verslun í júlí er ítrekað að ekki sé ljóst hver velta dagvöruverslunar var. Hins vegar  sýni verðmæling Hagstofunnar að verð á dagvöru fer ört lækkandi. Þannig var verð á dagvöru í júlí 4,7% lægra en í sama mánuði í fyrra. 

Í júlí urðu miklar sveiflur í veltu þeirra tegunda verslunar sem mælingin nær til.

Velta í sölu áfengis var 10,2% minni í júlí síðastliðnum en í júlí í fyrra. Ástæðan er sú að á síðasta ári var frídagur verslunarmanna 1. ágúst og því fór sala á áfengi fyrir verslunarmannahelgina fram í júlí en á þessu ári var frídagurinn 7. ágúst og því fóru helgarinnkaupin fram í byrjun ágúst í ár. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir verslunarmannahelgaráhrifunum kemur í ljós að áfengissalan í júlí var nánast sú sama og í fyrra.

Mikill vöxtur var í sölu á byggingarvörum og húsgögnum í júlí. Athyglisvert er að verð á húsgögnum var 12,4% lægra í júlí síðastliðnum en tólf mánuðum áður. Þar er væntanlega ekki um svokölluð Costco-áhrif að ræða heldur aðra þætti eins og gengisstyrkingu krónunnar og/eða lækkun innflutningsverðs, segir í yfirliti Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Aðra sögu er að segja af verði á byggingarvörum sem lækkaði aðeins um 1,1% á milli ára. Sala á byggingarvöru eykst stöðugt og var 11% meiri í júlí en í sama mánuði í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert