Ekki ókeypis miðar hjá SAS

Varúð! Svindl!
Varúð! Svindl! Skjáskot/Facebook

Ef þú sérð að einhver vina þinna á Facebook hefur deilt færslu frá SAS um ókeypis flugmiða skaltu EKKI smella. Um svindl er að ræða. Smelli fólk á tengilinn getur svo farið að færslan birtist sjálfkrafa á þeirra Facebook-síðu. Í sumum færslunum stendur að flugfélagið Norwegian sé að gefa flugmiðana. Í báðum tilvikum er um svindl að ræða.

Dreifing þessa svindls á ekki aðeins við um Ísland, Norðmenn, Svíar og Danir eru í hópi þeirra þjóða sem nú kljást við óværuna, segir í fréttum Ekstrabladet og Dagbladet.

„Þú hefur verið valinn til að taka þátt í stuttri könnun og færð að launum tvo ókeypis flugmiða með SAS! Við eigum bara 764 miða eftir svo flýttu þér!“ segir í færslunni. Slóðin sem undir stendur er misjöfn, t.d. sas-sweden.com, sas-norway.com og þar fram eftir götunum.

Tæknisérfræðingur sem Ekstrabladet ræðir við segir að svindlið snúist um að fá umferð um ákveðnar netsíður. Hann segir þetta eitt helsta markmið margra netsvindla í dag. Í einhverjum tilvikum getur verið að svindlararnir ætli að ná gögnum af tölvum viðkomandi. 

Talsmaður SAS í Noregi segir við Dagbladet að flugfélagið hafi fengið veður af svindlinu í fyrradag. „Þetta er svindl,“ segir Tonje Sundt, talskona SAS. Hún segir mikilvægt að netverjar smelli ekki á hlekkinn og deili svo slíkum síðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert