„Geirvörtusmyrsl og vasilín á hæla“

„Ef ég get hlaupið 21 kílómetra þá geta allir hlaupið. Það er engin afsökun,“ segir grínistinn Steindi Jr. Hann kveðst ekki vera mikill hlaupari en er nú búinn að koma sér í klípu og ætlar að hlaupa 21 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn til styrktar Neistanum, styrktarfélagi hjartveikra barna.

Steinda til halds og trausts verða slökkviliðs- og sjúkraflutningamennirnir Loftur Þór Einarsson og Ágúst Guðmundsson sem ætla að hlaupa hálfmaraþon með Steinda. Hann útilokar ekki að hlaupa heilt maraþon á næsta ári en ætlar þó fyrst að sjá hvernig gengur í ár. Hann lumar þó á nokkrum ráðum fyrir hlaupið á laugardaginn og hvetur alla sem vilja til að heita á sig og styrkja Neistann.

Frá ár­inu 2006 hefur slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og farið 10 kílómetra með ein­stak­linga í hjóla­stól. Pálmi Pálmason hefur tekið þátt með slökkviliðinu frá upphafi og segir algjörlega ómissandi að taka þátt í hlaupinu.

Hefur farið í fimm aðgerðir erlendis

María Dís Gunnarsdóttir er átta ára og hefur fimm sinnum þurft að sækja hjartaaðgerðir í Boston og er ein af fáum börnum á Íslandi sem notast við gangráð. Fríða Björk Arnardóttir, móðir Maríu Dísar og framkvæmdastjóri Neistans, segir áheitasöfnunina í Reykjavíkurmaraþoninu skipta sköpum fyrir lítið félag eins og Neistann en undanfarin ár hafa safnast á bilinu 2-3 milljónir Neistanum til handa í áheitasöfnuninni.

Alls hlaupa um 120 manns fyrir Neistann í ár, þar af 19 vaskir slökkviliðsmenn og konur, og ætla mæðgurnar María Dís og Fríða Björk að sjálfsögðu og mæta og hvetja hlauparana á laugardaginn.

Hér má heita á lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, Steinda Jr. og aðra hlaupara sem safna áheitum fyrir Neistann, styrktarfélag hjartveikra barna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert