Neytendasamtökin boða félagsfund

Harðar deilur hafa verið uppi innan samtakanna síðustu mánuði.
Harðar deilur hafa verið uppi innan samtakanna síðustu mánuði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stjórn Neytendasamtakanna hefur boðað til félagsfundar klukkan 17 í dag, fimmtudaginn 17. ágúst. Þar verður farið yfir stöðu mála og leitað eftir aðstoð og tillögum frá félagsmönnum að því er fram kemur í frétt á vef samtakanna.

Eins og fjallað hefur verið um hafa harðar deilur verið uppi innan samtakanna síðustu mánuði, en stjórn samtakanna lýsti yfir vantrausti á þáverandi formann, Ólaf Arnarson, í maí síðastliðnum. Sagði stjórnin Ólaf hafa komið félaginu í erfiða fjárhagsstöðu vegna útgjalda sem hann hafi stofnað til án aðkomu stjórnarinnar.

Í kjölfarið var öllu starfsfólki samtakanna sagt upp í júní til að bregðast við hinnar bágu fjárhagsstöðu. Loks sagði Ólafur af sér í júlí, en hann hafði gegnt starfinu frá því í október á síðasta ári. 

Einungis skuldlausir félagsmenn geta setið fundinn

Í yf­ir­lýs­ingu frá Ólafi í kjölfar uppsagnarinnar sagði hann ta­prekst­ur sam­tak­anna mega skýra af mikl­um tekju­sam­drætti en ekki aukn­um út­gjöld­um sam­tak­anna. Sagði hann þjón­ustu­samn­inga við ríkið brot af því sem var áður fyrr og fé­lags­mönn­um hafi fækkað mikið. 

Ólaf­ur var gagn­rýnd­ur fyr­ir að hafa hækkað laun sín sem fram­kvæmda­stjóri og fyr­ir að hafa greitt sér laun fyr­ir fram. Þá gagn­rýndi minni­hluti stjórn­ar Ólaf fyr­ir að hafa haft bíla­leigu­bíl til umráða sem sam­tök­in borguðu fyr­ir og eins fyr­ir að hafa skuld­bundið fé­lagið fjár­hags­lega vegna smá­for­rits sem sam­tök­in létu gera.

Á dagskrá fundarins í dag er starf stjórnar frá síðasta þingi, staða fjármála samtakanna, umræður og siða- og starfsreglur. Fundurinn fer fram á Hotel Reykjavik Centrum að Aðalstræti og er fundarstjóri Gunnar Alexander Ólafsson. Einungis skuldlausir félagsmenn geta setið fundinn að því er fram kemur á Facebook-viðburði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert