Ásta ráðin sviðstjóri starfsmannasviðs HÍ

Ásta Möller hefur verið ráðin sviðsstjóri starfsmannasviðs Háskóla Íslands.
Ásta Möller hefur verið ráðin sviðsstjóri starfsmannasviðs Háskóla Íslands. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Ásta Möller hefur verið ráðin sviðsstjóri starfsmannasviðs Háskóla Íslands frá 1. ágúst. Hún starfaði sem sviðsstjóri starfsmannasviðs Háskóla Íslands frá því í byrjun ágúst í fyrra er hún var ráðin tímabundið til eins árs.

Ásta lauk B.Sc.-gráðu í hjúkrunarfræði árið 1980 og MPA-meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands árið 2006.

Ásta hefur starfað hjá Háskóla Íslands frá ársbyrjun 2010, fyrst sem forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslu og stjórnmála hjá stjórnmálafræðideild og síðar sem verkefnisstjóri við stjórnsýsluúttektir á skrifstofu rektors 2014-2016.

Ásta var alþingismaður og varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn árin 1999-2009. Hún var formaður Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga 1989-1994 og formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 1994-1999 eftir sameiningu félaga hjúkrunarfræðinga. Hún var jafnframt formaður samninganefnda félaganna á starfstíma sínum. Ásta hefur enn fremur starfað við hjúkrun, stjórnun og kennslu á heilbrigðisstofnunum. Hún var settur aðjúnkt í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands 1982-1984.

Ásta hefur átt sæti í mörgum nefndum á vegum stjórnvalda í opinberri stefnumótun og setið í stjórnum fyrirtækja og stofnana á vegum ríkisins. Hún sat í stjórn Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga um árabil, m.a. sem formaður stjórnar, og hefur átt sæti í stjórn og miðstjórn BHM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert