Gjaldskrá hærri en í Hvalfjarðargöngum

Frá framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng.
Frá framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Úttekt á framkvæmd Vaðlaheiðarganga var kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun en ríkisstjórnin samþykkti í vor að leggja til við Alþingi að verja allt að 4,7 milljörðum til að ljúka við gerð ganganna. Auk umframkostnaðar hafa talsverðar tafir orðið á verkinu frá því heimild til að hefja það var veitt árið 2012.

Friðrik Friðriksson, rekstrarráðgjafi hjá Advance var fenginn til verksins. Hann skilaði drögum að skýrslu í júní og endanlegri skýrslu þann 15. ágúst.

Telst ekki vera eiginleg einkaframkvæmd

Meðal helstu niðurstöðu úttektarinnar eru þær að verkefnið geti ekki talist eiginleg einkaframkvæmd. Upphaflega var lagt upp með að svo yrði.

Þá kemur fram að helstu ástæður tafa og umframkostnaðar sé mikið innstreymi af heitu vatni, langvarandi jarðhiti, samfelld bergþétting, stórt hrun og mikið innrennsli af köldu vatni. Friðrik telur ekki ljóst að frekari rannsóknir hefðu dregið úr framkvæmdaáhættu en jarðfræðirannsóknir hafi verið viðamiklar. 

Mögulegt að lán ríkisins innheimtist, en óvissa uppi

Bent er á að aukin umferð bæti rekstrarhorfur og mögulegt sé að lán ríkisins innheimtist innan skynsamlegs lánstíma. Enn er þó talsverð óvissa um umverðaþróun og greiðsluvilja.

Segir að verðlagning veggjalda um göngin og þróun umferðar ráða langmestu um afkomu ganganna, ásamt vöxtum af væntanlegu langtímaláni en vegstytting af göngum skiptir miklu um greiðsluviljann.

Kallar á hærri gjaldskrá en í Hvalfjarðargöngum

„Tiltölulega lítil vegstytting er af Vaðlaheiðargöngum. Um þennan lið, sem þó skiptir meginmáli er augljóslega mikil óvissa. Ljóst er að gjaldskrá Vaðlaheiðarganga verður að vera talsvert hærri en í Hvalfirði til þess að endurheimtur lána að fullu séu raunhæfar, en gjaldskrá Hvalfjarðarganga hefur verið nánast óbreytt frá upphafi,“ segir í niðurstöðu úttektarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert