Matvælastofnun ver aflífun

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. mbl.is/Árni Sæberg

Matvælastofnun ver þá ákvörðun héraðsdýralæknis að aflífa hesta á bænum Skriðulandi í Hörgársveit með skoti í bóginn en ekki hausinn líkt og reglugerð um velferð hrossa kveður á um. Í fréttatilkynningu frá stofnuninni segir að ekki hafi verið hægt að nota þær aðferðir sem farið er fram á í reglugerðinni þar sem þær krefjist mikillar nákvæmni. Bendir stofnunin jafnframt á að í reglugerðinni segi að skylt sé að aflífa alvarlega veik hross eins fljótt og auðið er, sé meðhöndlun ekki möguleg.

Matvælastofnun heldur því enn fremur fram að hestarnir hafi drepist samstundis. Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu og var sú ályktun dregin að einhver tími hefði liðið frá því þeir voru skotnir þar til þeir drápust enda láu hestarnir á víð og dreif um bæjarstæðið, sumir nokkuð langt frá gerðinu þar sem þeir voru aflífaðir. Að sögn Matvælastofnunar skýrist það af því að hræin voru dregin úr augsýn frá þjóðvegi. Óvíst er þó hví þeim var ekki komið fyrir á sama svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert