Minnir núverandi efnahagsástand á 2007?

Margir líkja árunum 2007 og 2017 ekki saman með bjartsýni ...
Margir líkja árunum 2007 og 2017 ekki saman með bjartsýni í huga heldur fremur að þar séu tákn sem vísi til yfirvofandi kreppu. „Það þarf alls ekkert að vera,“ segir Henný. mbl.is/Golli

Margt er líkt með árunum 2007 og 2017 en það er margt sem skilur árin tvö að. Að sögn Hennýar Hinz, deildarstjóra hagdeildar Alþýðusambands Íslands, helst neysla Íslendinga betur í hendur við tekjur þeirra en árið 2007. Þá segir hún að verðbólga sé lág, viðskiptajöfnuðurinn jákvæður með tilkomu ferðaþjónustu og ef húsnæði er tekið út fyrir sviga sé almenn verðhjöðnun á Íslandi.

Margir líkja árinu 2017 við það efnahagsástand sem ríkti árið 2007, enda er margt líkt með árunum tveimur. Einkaneysla Íslendinga er gífurleg, fréttir um metsölur í bílasölu og utanlandsferðir eru áberandi og sjaldan hafa selst jafn margir heitir pottar. 

Eigum fyrir neyslunni

Henný segir að margt vissulega líkt með árunum efnahagslega: „Við erum í hagvaxtatímabili, atvinnuástandið er gott, einkaneyslan er mikil, gengið er sterkt og fasteignaverð hefur hækkað mikið. Þetta eru stef sem að minna á 2007,“ segir hún. „Við erum í bullandi góðæri.“

Allt eru þetta jákvæðir hlutir, en margir líkja árunum ekki saman með bjartsýni í huga heldur fremur að þar séu tákn sem vísi til yfirvofandi kreppu. „Það þarf alls ekkert að vera,“ segir Henný.

Henný Hinz, deildarstjóri hagdeildar Alþýðusambands Íslands.
Henný Hinz, deildarstjóri hagdeildar Alþýðusambands Íslands. mbl.is/Golli

Það er margt sem skilur góðærin tvö að að hennar sögn.

Meðal annars segir hún að neysla Íslendinga sé ekki jafn skuldadrifin. Íslendingar í dag eigi fyrir neyslu sinni, ólíkt því sem var árið 2007:

„Neyslan þá var að aukast miklu meira en tekjurnar,“ segir hún, „þannig að við vorum að skuldsetja okkur gríðarlega mikið fyrir þessari neyslu.“ Nú haldist neyslan því frekar í hendur við tekjur fólks en ekki við skuldsetningu erlendis.

Viðskiptahalli þá en nú jákvæður viðskiptajöfnuður

Ennfremur megi nefna að í ár sé jákvæður viðskiptajöfnuður en árið 2007 hafi verið gífurlegur viðskiptahalli. „Við fáum gjaldeyri inn í landið, sem dugar fyrir því sem við erum að kaupa í útlöndum. Þannig var það náttúrulega ekki fyrir hrun,“ segir Henný.

Henný segir þetta mega meðal annars rekja til ferðaþjónustunnar: „Þar er auðvitað ein stór grundvallarbreyting sem hefur gerst á þessu tímabili að ferðamannaiðnaðurinn hefur margfaldast þannig að við erum að fá miklu meiri tekjur erlendis frá.“

Ferðaþjónustan hafi ekki verið eins áberandi 2007 en síðan þá hafi hún eflst gífurlega og efnahagslegt mikilvægi hennar margfaldast. Í dag sé hún líklega ein meginástæðna fyrir núverandi góðæri. Henný segir þó að ákveðið óöryggi fylgi ferðaþjónustunni og ekki sé víst hve viðkvæm greinin sé. 

Aðspurð um hugsanleg neikvæð viðbrögð Íslendinga við góðærinu svarar Henný: ...
Aðspurð um hugsanleg neikvæð viðbrögð Íslendinga við góðærinu svarar Henný: „Erum við ekki bara brennd?“ mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Stöðugt verðlag og lág verðbólga

Henný segir að verðlag hafi verið stöðugt í miklu lengri tíma en „við höfum nokkurn tímann eiginlega séð áður“. Verðbólga hafi verið lág síðastliðin þrjú ár, sem sé afar óvenjulegt á Íslandi.

Hún nefnir einnig að ef frá er talið húsnæði sé verðhjöðnun á Íslandi,. „Taki maður húsnæði út fyrir sviga þá er í rauninni verðhjöðnun vegna þess að innfluttu vörurnar eru að hafa svo mikil áhrif.“

„Erum við ekki bara brennd?“

Aðspurð um hugsanleg neikvæð viðbrögð Íslendinga við góðærinu svarar Henný: „Erum við ekki bara brennd?“

Hún útskýrir að hagsveiflur séu jafnan dramatískari hérlendis, þær fari bæði hærra og dýpra en víða annars staðar. Þegar að það sé uppgangur, sé mikill uppgangur og þegar það sé niðursveifla, sé mikil niðursveifla.

Niðurstaðan er þó ekki að kreppan 2007 endurtaki sig. „Síðasta niðursveifla er auðvitað ekki lík neinni annarri. Hún var svo dramatísk,“ segir hún.

Stóra hættumerkið sé gjaldmiðillinn

„Stóra hættumerki okkar er auðvitað gjaldmiðilinn. Við vitum það að þetta er lítill og mjög viðkvæmur gjaldeyrir sem við höfum. Við gerum ráð fyrir að fyrr eða síðar þá muni hækkun hans ná þolmörkum og hann gefi eftir og þá þekkja allir Íslendingar hvað gerist,“ segir Henný. 

Þetta þýði þó ekki að hér komi hrun. „Það koma hagsveiflur, við verðum ekki þar undanskilin,“ segir hún. „En það er ekkert sem gefur okkur til kynna að við lendum hér aftur í bæði gjaldmiðils- og bankakreppu í leiðinni!“ bætir hún við.

mbl.is