„Við töpum viku á þessu“

Ljósmynd/Magnús Tumi Guðmundsson

„Þetta er náttúrulega töluverður viðbótarkostnaður, en við förum nú í það að sjá hvaða svigrúm við höfum og hvort við getum fengið frekari stuðning,“ Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði og einn forsvarsmanna verkefnisins í Surtsey, en borhola verkefnisins féll saman í fyrradag. 

Bor­hola í Surts­ey féll sam­an og bor festist auk þess í henni. Hætta þurfti við að gera holuna, en nú þegar hefur verið hafist handa við að bora aðra. 

Borinn eyðilagðist þó ekki: „Það eyðileggjast þarna nokkrar borstangir en borinn sjálfur er ennþá heill,“ segir Magnús.

Þarf mögulega meira fjármagn

Helsta tapið er því vinnan, en borinn var kominn tæpa 152 metra af 200, eftir fimm sólahringa vinnu. „Við töpum viku á þessu,“ segir Magnús. Verkefnið þarf því mögulega meira fjármagn og einnig þarf teymið að sækja um formlegt leyfi til Umhverfisstofnunnar til að vera lengur á eynni.

Hann segir verkefnið mikilvægt enda sé Surtsey einn af fáum stöðum þar sem hægt sé að framkvæma rannsóknir af þessari gerð.

„Innviðina skoðum við ekki nema með því að bora, hvernig þeir hafa breyst og þróast, það er það sem við fáum út úr þessu,“ segir Magnús að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert