Beindi byssu að fólki í bifreið

Fjórir karlmenn voru handteknir síðastliðna nótt og í dag vegna atviks sem átti sér stað í gærkvöldi fyrir utan veitingastað í Hafnarfirði. Þar steig einn mannanna út úr bifreið og ógnaði að sögn vitna fólki í annarri bifreið með skotvopni. Bifreiðunum var síðan ekið í kjölfarið á brott.

Tveir mannanna voru handteknir síðustu nótt þegar bifreiðin fannst sem byssumaðurinn var í og tveir aðrir í Borgartúni í Reykjavík síðdegis í dag að sögn Sævars Guðmundssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem handteknir voru í nótt voru látnir lausir í kjölfar skýrslutöku en hinir tveir verða væntanlega yfirheyrðir á morgun.

Sérsveitin handtók mennina í Borgartúninu. Sævar segir að ekki liggi fyrir hverjir hafi verið í hinni bifreiðinni. Enginn hafi stigið fram sem hafi verið í henni. Lögreglan telur að annar þeirra sem handteknir voru í dag hafi verið sá sem beindi skotvopninu að hinni bifreiðinni.

Skotvopnið hefur ekki fundist enn. Lögreglan telur að sögn Sævars að málið tengist einhvers konar uppgjöri en til orðaskaks kom á milli þeirra sem voru í bifreiðunum tveimur áður en maðurinn steig út úr annarri bifreiðinni og beindi skotvopninu að fólkinu í hinni.

Mennirnir tveir sem eru í haldi lögreglunnar hafa áður komið við sögu hennar að sögn Sævars. „Já, þetta eru strákar sem við þekkjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert