Skólasetningu frestað vegna magakveisu

Nemendur í Háaleitisskóla.
Nemendur í Háaleitisskóla. mbl.is/Rósa Braga

Skólasetningu í Hvassaleiti, annarri af tveimur starfsstöðvum Háaleitisskóla, hefur verið frestað um tvo daga vegna magakveisu starfsfólks.

Hanna Guðbjörg Birgisdóttir, skólastjóri í Háaleitisskóla, segir að meira en helmingur starfsfólks hafi veikst en alls starfa 36 á þessari starfsstöð.

„Þetta er leiðindapest sem herjar á okkur,“ segir Hanna Guðbjörg í samtali við mbl.is. 

Í tilkynningu frá skólanum kemur fram að starfsmennirnir hafi veikst í liðinni viku og að ekki sé ráðlegt að hefja skólastarfið á meðan smithætta getur verið fyrir hendi. Þar segir einnig að verið sé að kanna ástæður veikindanna í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og sóttvarnarlækni.

Hanna Guðbjörg Birgisdóttir, skólastjóri Háaleitisskóla.
Hanna Guðbjörg Birgisdóttir, skólastjóri Háaleitisskóla. mbl.is/Ómar

„Heilbrigðiseftirlitið er búið að vera hjá okkur í allan dag,“ segir Hanna Guðbjörg og bætir við að veikindin hafi komið á versta tíma enda var skólasetning fyrirhuguð á morgun. Þess í stað verður hún á fimmtudaginn. Viðtöl við 1. bekkinga færast jafnframt yfir á fimmtudag og föstudag.

Að sögn Hönnu er hluti hópsins sem veiktist búinn að fara í skoðun en niðurstöður úr henni eru ekki komnar.

Hún segir að viðbrögð skólans hafi verið ákveðin í samráði við heilbrigðiseftirlitið og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. „Það hafa allir sýnt þessu mikinn skilning,“ segir hún spurð út í viðbrögð foreldra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert