Skora á borgina að borga skólagögnin

Börn á bókasafninu í Seljaskóla.
Börn á bókasafninu í Seljaskóla. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Foreldrafélög grunnskóla í Breiðholti skora á Reykjavíkurborg að afla nemendum borgarinnar skólagagna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem send var borgarstjóra og borgarfulltrúum nú í kvöld.

„Þetta haust bregður svo við að Reykjavík, höfuðborg landsins, telur sér ekki fært að útvega grunnskólabörnum skólagögn.  Það ætti að vera borgaryfirvöldum metnaðar- og jafnréttismál að grunnskólabörn í Reykjavík standi ekki höllum fæti gagnvart öðrum börnum á landinu,“ segir í yfirlýsingunni. 

41 sveitarfélag, sem mörg séu aðeins brotabrot af stærð borgarinnar, hafi þegar brugðist við áskorun Barnaheilla um að virða réttindi barna til gjaldfrjálsrar grunnskólamenntunar líkt og Barnasáttmálinn kveður á um.  

Reykjavík sé það sveitarfélag sem ætti vegna stærðarhagkvæmni að geta aflað skólagagna fyrir börn borgarinnar með hagkvæmum hætti.  „Þannig væri jafnræði meðal skólabarna borgarinnar tryggt sem og aðbúnaður barna sem standa höllum fæti.“ Enda muni barnaheimili um þann gagnakostnað sem fylgir grunnskólagöngunni.

„Það er að okkar mati skammarlegt að höfuðborg landsins skuli vera eftirbátur 41 sveitarfélags hvað þetta varðar.  Við skorum á borgina að gera grunnskóla svo sannarlega gjaldfrjálsan og afla skólagagna án þess að það komi niður á öðrum fjárframlögum til skólanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert