Áverkar á Thomasi vegna mótspyrnu?

Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í gær.
Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áverkar sem Thomas Møller Ol­sen var með á bringu við handtöku fimm dögum eftir hvarf Birnu Brjánsdóttur gætu hafa verið merki um mótspyrnu við árás. Þetta sagði Urs Wiesbrock, þýskur réttarmeinafræðingur og dómkvaddur matsmaður í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi sem grunaður er um að hafa ráðið Birnu bana í janúar sl.

Wiesbrock lýsti áverkum á líkama Birnu, Thomasi og Nikolaj og fór ítarlega yfir niðurstöður sínar fyrir dómnum í dag en honum var gert að svara sex spurningum í málinu. Sagði hann meðal annars að áverkar á líkama Thomasar gætu verið vegna mótspyrnu, en áverkar sem Nikolaj Wil­helm Her­luf Ol­sen var með á vinstri hendi hefðu líklega verið yngri en fimm daga. Voru Thomas og Nikolaj báðir handteknir fimm dögum eftir hvarf Birnu.

Thomas snökti í læknisskoðun

Þá sagði Sveinn Magnússon læknir sem einnig bar vitni um áverka á Thomasi og Nikolaj að hann teldi áverkana á bringu Thomasar hafa verið 4-6 daga gamla þegar hann fékk brotaþola í læknismat. 

Þá sagði hann Thomas hafa snökt í læknisskoðuninni og verið afar auman. „Ástandið á honum var sveiflukennt, hann byrjaði gjarnan að snökta og gráta þegar ég þurfti að setja sýnin til hliðar og snéri mér frá honum, en herti sig upp þegar ég snéri mér aftur að honum,” sagði Sveinn.

Spurður um Nikolaj sagði hann: „Hann var allt annar,“ og vísaði í að Nikolaj hefði verið hinn rólegasti yfir skoðuninni.

Þýski réttarmeinafræðingurinn Urs Wiesbrock.
Þýski réttarmeinafræðingurinn Urs Wiesbrock. mbl.is/Árni Sæberg

Högg sem þessi þurfi ekki að skilja eftir sig áverka á geranda

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari spurði Wiesbrock hvort gerandi hefði líklega haft áverka eftir árásina. Sagði Wiesbrock að högg sem lentu á nefi eða munni gætu leitt til margvíslegra áverka, allt frá yfirborðslegum áverkum í húð og allt til þess að áverkinn næði dýpra niður. Þó að ekki yrði opinn húðáverki gæti einnig komið fram bólga undir húðinni.

Högg á annan mjúkvef andlits þyrfti ekki endilega að hafa í för með sér áverka fyrir gerandann.

Áverkarnir hugsanlega vegna fingra eða fingurnagla

Á höndum Thomasar sagði Wiesbrock að sjá mætti bólguviðbrögð. Hann sagði að ekki væri hægt að fullyrða um hvort þau væru eftir árásina. Þá sagði hann að alls ekki þyrftu að vera varanlegir áverkar á höndum eftir högg af því tagi sem Birna hlaut. Að minnsta kosti yrði roði en hann gæti verið horfinn eftir einn til tvo daga.

Kolbrún spurði hann því næst út í ummæli hans í skýrslunni, þar sem hann sagði að áverkar á Thomasi mætti hugsanlega rekja til mótþróa brotaþola.  Á skjánum birtist þá mynd af Thomasi berum að ofan, þar sem sjá mátti áverka á bringu hans á tveimur stöðum. Wiesbrock sagði að áverkarnir gætu hæglega hafa orðið vegna fingra eða fingurnagla.

Sveinn Magnússon læknir.
Sveinn Magnússon læknir. mbl.is/Árni Sæberg

Áverkar á Nikolaj ólíklega 5 daga gamlir

Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar, spurði Wiesbrock út í áverka sem fundust á Nikolaj Olsen, skipverja á Polar Nanoq sem grunaður var einnig í fyrstu og hafði stöðu sakbornings í málinu um sinn. Honum var síðar sleppt og bar vitni í málinu í gær.

Á skjánum birtist mynd af Nikolaj berum að ofan og með vinstri hönd sína við hlið sér. Var gulur hringur utan um rauðleita bletti á handarbakinu. Spurði verjandinn hvort áverkarnir gætu verið fimm daga gamlir, þar sem Nikolaj var líkt og Thomas tekin fimm dögum eftir hvarf Birnu.

Sagði Wiesbrock að ekki væri við því að búast að svona húðroði væri enn til staðar eftir áverka fimm dögum fyrr. Því mætti ætla að áverkarnir væru yngri. Bætti hann við að myndgæðin væru slök en hann gæti mögulega sagt betur til um þetta fengi hann myndina í betri upplausn.

Á eftir Wiesbrock er kallaður til Ragnar Jónsson, bæklunarlæknir og dómkvaddur matsmaður, sem skoðaði stoðkerfi Thomasar, vinstri öxl og hné.

„Ákærði er með skemmd í vinstri öxl, sem er eftir liðhlaup. Einkennin benda ekki til þess að geta hans sé takmörkuð til að gera það sem spurt var um," segir Ragnar um ástand Thomasar.

Verjandi Thomasar, Páll Rúnar Kristjánsson, spyr út í það hvort einhver fyrirvari sé á þessu mati Ragnars, en svar hans er einfalt: „Nei.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert