Breiðdalsvík rafmagnslaus í sjö tíma

Frá Breiðdalsvík.
Frá Breiðdalsvík. Sigurður Bogi Sævarsson

Íbúar í Breiðdalsvík voru rafmagnslausir í sjö klukkustundir í gærdag og eru margir ósáttir með að ekki hafi verið staðið betur að úrbótum til að koma í veg fyrir langtíma rafmagnsleysi í bænum. Vararafstöð sem á að þjóna svæðinu var stödd suður í Öræfum, að því er vefmiðillinn Austurfrétt greindi frá.

Rafmagnslaust varð klukkan 14:18 í gær og komst rafmagnið ekki aftur á fyrr en kl. 21:24, rúmum sjö klukkustundum síðar. Orsök rafmagnsleysisins var bilun í jarðstreng, sem tók langan tíma að finna og gera við.

Atvinnurekandi á Breiðdalsvík segir í samtali við Austurfrétt að langvarandi rafmagnsleysi geti haft alvarlega afleiðingar fyrir fyrirtæki í bænum. Ekki sé hægt að landa fiski, vörur geti skemmst í versluninni og framleiðslan í nýlega stofnuðu brugghúsi í bænum hefði getað eyðilagst.

Kom á óvart að vararafstöð væri ekki tiltæk

Undir þetta tekur Hákon Hansson, oddviti sveitarstjórnar Breiðdalshrepps. „Það er afleitt að þurfa að óttast það að verði rafmagnslaust tímum saman. Þetta var mjög langur tími, frá klukkan hálfþjú til klukkan að verða hálftíu,“ segir Hákon í samtali við mbl.is.

„Þetta var á háannatíma, veitingastaðir og önnur starfsemi lendir í miklum vandræðum út af þessu.“

Hann segir það hafa komið mikið á óvart að vararafstöð væri ekki til taks þegar á reyndi. „Það kom okkur algjörlega á óvart. Hér varð einu sinni rafmagnslaust í mjög langan tíma yfir hávetur, fyrir einu og hálfu ári held ég. Þá ályktuðum við um það að þessi vararafstöð yrði að vera tiltæk alltaf, en það virðist ekki ganga eftir,“ segir Hákon.

„Við höfum enga möguleika á því að fylgjast með því hvar þær eru, en þegar það kemur ítrekað upp á að hún sé annars staðar, þá er það náttúrulega afleitt.“

Úrbætur standa til

Úrbætur eru fyrirhugaðar í rafveitumálum Breiðdælinga og Hákon segist vonast til þess að raforkuöryggi bæjarbúa verði tryggt þar til þá.

 „Við gerum okkur vonir um að á næsta ári muni þetta lagast en við munum óska eftir því að þurfa ekki að búa við þetta óöryggi þar til þá,“ segir Hákon.

Ekki er hægt að landa fiski við höfnina í Breiðdalsvík …
Ekki er hægt að landa fiski við höfnina í Breiðdalsvík í rafmagnsleysi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert