Fengu annað álit sérfræðinga í Noregi

Thomas Møller Olsen í héraðsdómi.
Thomas Møller Olsen í héraðsdómi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír lögreglumenn, sem komu að rannsókn á fingraförum sem fundust á ökuskírteini Birnu Brjánsdóttur, báru vitni fyrir dómi nú fyrir skömmu. Samkvæmt fingrafarasérfræðingi hjá tæknideild lögreglunnar voru ekki til staðar nógu mörg einkenni í fingraförunum til að þau væru nothæf til samanburðar við fingraför Thomasar Møller Olsen.

Fingraförin voru engu að síður send út til Kripos í Noregi þar sem fengið var annað álit, en slíkt hefur ekki gerst á ferli hans sem fingrafarasérfræðings. Þetta kom fram við aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi, sem ákærður er fyrir að hafa banað Birnu 14. janúar síðastliðinn, en annar dagur aðalmeðferðar málsins er í dag.

Fann tvo fingrafaraparta

Guðmundur Þór Tómasson, lögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, tók við ökuskírteini Birnu eftir að svokölluð límleit fór fram á því. Hann ljósmyndaði fingraförin og tók af þeim afsteypu.

Verjandi Thomasar, Páll Rúnar Kristjánsson, spurði út í fjölda fingrafara á skírteininu og Guðmund minnti að hann hafi fundið tvo fingrafaraparta sem báðir voru sömu megin á skírteininu. Þá spurði Páll hvort ekki væri óvenjulegt að fingraför eiganda ökuskírteinis væri ekki að finna á þeim.

Guðmundur vildi ekki meina það og sagði skipta máli hvernig hlutir hefðu verið handfjatlaðir og hvort þeir hafi verð handfjatlaðir nýlega. Það væri því ekki alltaf að finna fingraför eigenda a hlutum þeirra.

Mat fingraförin ekki nothæf

Vignir Oddgeirsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði að niðurstaða gæðamats fingrafara á ökuskírteininu hefði verið sú að of fá einkenni hafi verið til staðar til að hægt væri að gera samanburð. Það hafi því verið látið á það reyna að fá aðstoð sérfræðinga í Noregi, sem búa yfir mikilli reynslu, og kanna hvort þeir kæmust að annarri niðurstöðu.

Því næst lýsti Kristján Kristjánsson, lögreglumaður og fingrafarasérfræðingur hjá tæknideild lögreglunnar, sínu hlutverki í rannsókninni, en það var hann sem gerði gæðamat á þeim fingraförum sem fundust á ökuskírteininu.

Kolbrún Beneditksdóttir varahéraðssaksóknari, sem sækir málið, spurði hann út í skýrslu sem hann gerði á gæðamati á fingraförum á ökuskírteini.

Kristján sagði að miðað væri við að 12 einkenni að lágmarki væru til staðar í fingrafari til að hægt væri að framkvæma á því rannsókn. Þessi 12 einkenni voru ekki til staðar á fingraförunum sem fundust á ökuskírteininu. Kristján mat það því þannig, miðað við sína reynslu og starfsaðstæður, að það uppfyllti ekki skilyrði til að hægt væri að gera samanburðarrannsókn. „Mín niðurstaða var sú að það væri ekki nothæft,“ sagði Kristján.

Óskað eftir nýjum fingraförum af Thomasi

Verjandi Thomasar tók næst við keflinu og spurði Kristján af hverju það hefðu verið tekin fingraför af Thomasi í tvígang.

Hann sagði ástæðuna hafa verið beiðni norskra kollega um að taka önnur fingraför því það vantaði á fingraförin sem send höfðu verið þangað.

„Er algengt að þegar þú segir að niðurstaða sé ekki nothæf, að fingraför séu send annað?“ spurði Páll. „Nei það hefur aldrei gerst á mínum ferlum,“ svaraði Kristján.

Kolbrún spurði hann að lokum út í reglurnar varðandi þessi 12 einkenni sem þurfa að vera til staðar á fingraförum svo hægt sé að gera rannsókn. Kristján segir þær ekki skriflegar, en þær vinnureglur séu viðhafðar hjá tæknideild lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert