Fingrafar Thomasar á ökuskírteininu

Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness.
Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fingrafar Thomas­ar Møller Ol­sen fannst á ökuskírteini Birnu Brjánsdóttur sem sent var til rannsóknar á glæpadeild norsku lögreglunnar Kripos eftir að það fannst um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq í janúar.

Finn Omholt-Jensen, lögreglufulltrúi frá Kripos í Noregi, bar vitni í gegnum síma fyrir dómi í dag. Hann kom að fingrafararannsókninni eftir að þrír íslenskir lögreglumenn komu með gögn á rannsóknardeildina.

Íslenskir lögreglumenn komu með gögn

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari spurði Finn út í skýrslu sem hann gerði fyrir íslensku lögregluna vegna rannsóknarinnar og hver niðurstaða hennar hafi verið.

„Þrír lögreglumenn komu til Kripos í Noregi með gögn og okkur var sönn ánægja að samstarfa með þeim. Þeir tjáðu okkur að þeir hefðu með sér gögn er vörðuðu morðmál á Íslandi og spurðu okkur hvort við gætum aðstoðað þá,“ sagði Jensen og bætti við að því hafi verið jánkað og aðstoð boðin fram.

Lögreglumennirnir hafi haft meðferðis gögn eins og ökuskírteini Birnu sem fannst um borð í skipinu og myndir af fingraförum Thomasar. „Íslenska lögreglan hafði þegar unnið heimavinnuna sína og þeir framvísuðu gögnum sem þeir höfðu unnið og undirbúið, til dæmis höfðu þeir notað svart fingrafaraduft til að framkalla fingraförin sem þeir voru með með sér,“ sagði Jensen.

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og Páll Rúnar M. Kristjánsson verjandi.
Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og Páll Rúnar M. Kristjánsson verjandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðeins eitt fingrafar nothæft

Jensen sagði að þegar fingraförin voru skoðuð kom í ljós að aðeins eitt þeirra var nothæft. „Þeir komu hins vegar með með sér frumrit af ökuskírteininu. Ég fór með þessi gögn á rannsóknarstofu í Kripos til frekari rannsóknar. Þar var reynt að skýra þetta fingrafar sem fyrir var og einnig reyna að finna önnur fingraför,“ sagði Jensen.

Sagði hann að eftir rannsóknina hjá Kripos hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að eina nothæfa fingrafarið á ökuskírteininu hafi verið það sama og af vísifingri hægri handar hins grunaða.

Kolbrún spurði hvort allir þrír sem komu að fingrafararannsókninni hafi verið sammála um niðurstöðu hennar, að fingrafarið á ökuskírteininu hafi verið eftir hægri vísifingur Thomasar. Hann svaraði því játandi.

Fundu enga útilokunarþætti á fingrafarinu

Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar, spurði Jensen út í aðferðina sem notuð er við það að rannsaka fingraför hjá Kripos. Sagði hann að mismunandi staðlar væru notaðir í mismunandi löndum við fingrafararannsóknir. Í Noregi væri ekki notað númerað kerfi til að meta fingraför heldur væru sérkenni skoðuð. Sagði hann fingraför geta verið með fjöldann allan af sérkennum.

Þá spurði Páll hversu mörg sérkenni hafi fundist við rannsókn á fingrafari Thomasar. Jensen svaraði Páli með vísan í fyrra svar sitt, en Páli þótti svarið ekki fullnægjandi og ítrekaði því spurninguna. Þá sagði Jensen að tólf til fimmtán einkenni hefðu fundist sem væru samkennd fingrafari Thomasar.

Spurði verjandinn þá hvort einhverjir útilokunarþættir hafi fundist. „Nei, við gátum ekki fundið nein einkenni sem myndu útiloka að þetta væri sama fingrafar,“ sagði Jensen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert