Hálfdrættingur í fjárframlögum

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir um þriðjung deilda …
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir um þriðjung deilda innan háskólans eiga við alvarlegan rekstrarvanda að etja vegna þess að skólinn er illa fjármagnaður. Ljósmynd/Håkon Broder Lund

„Fjármálin eru okkur erfið en árangurinn er mikill,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í kjölfar ársfundar Háskóla Íslands sem haldinn var í dag, þar sem farið var yfir síðasta starfsár varðandi árangur í starfsemi og fjárhagslega stöðu.

Hann segir að um þriðjungur af 25 deildum háskólans eigi við viðvarandi alvarlegan rekstrarvanda að etja og annar þriðjungur eigi tímabundið í miklum erfiðleikum vegna þess að skólinn er illa fjármagnaður. Í samanburði við tölur háskóla á Norðurlöndunum er Háskóli Íslands enn þá hálfdrættingur í fjárframlögum á hvern nemenda.

„Háskólinn hefur lagt mikla áherslu á að afla innlendra og alþjóðlegra rannsóknarstyrkja og það hefur gengið mjög vel,“ segir hann en tveir þriðju fjárframlaga til háskólans koma frá ríkinu og einn þriðji er sjálfsaflafé. Þá hefur vísinda- og tækniráð, þar sem Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, er formaður, samþykkt nýja stefnu þar sem miðað er við að ná betri fjármögnun á háskólakerfinu á næstu árum.

Aukið tap milli ára

Mbl.is greindi frá því fyrr í dag að í ársreikningi Háskóla Íslands kom fram að tekjur háskólans jukust milli ára um tæpan milljarð króna, en á sama tíma nam tap tæpum 494 milljónum króna sem er heldur meira en árið áður er það nam tæpum 130 milljónum króna.

Jón Atli segir að háskólinn hafi fengið heimild frá ráðuneytinu til að fara umfram fjárheimildir ársins 2016 um 300 milljónir, í ljósi þess að skólinn hafi átt óráðstafaðar fjárheimildir frá fyrri árum. Segir hann beiðni skólans um að fá að fara fram úr fjárheimildum ársins 2016 meðal annars tilkomna vegna mikilla launahækkana á síðasta ári. Viðbótartap í ársreikningi er útskýrt með styrkingu krónunnar, en háskólinn er með talsverða fjármuni í gjaldeyri vegna erlendra styrkja.

„Þetta er eitthvað sem við erum að skoða hvernig við tökum á í framhaldinu, ef svona breyting verður á [gengi],“ segir hann til að koma í veg fyrir aukið bókfært tap.

Á lista yfir 500 bestu skólana 

Þá segir Jón Atli að Háskólinn ætli að setja sér á næstunni fimm ára áætlun um ráðstöfun fjármuna innan skólans í samræmi við fimm ára áætlun ríkisstjórnar um útgjöld til skólans í þeim tilgangi að geta gert sér grein fyrir því fyrir fram, miðað við stefnu ríkisins, hvernig staðan er og hagað málum eftir því.

Jón Atli nefnir einnig að Háskóli Íslands sé nú kominn í 401.-500. sæti á Shanghai-lista (Academic Ranking of World Universities) yfir 500 bestu háskóla heims. Til viðbótar megi nefna að einstök fagsvið innan háskólans séu í fremstu röð á heimsvísu. Þar séu ofarlega á lista lífvísindi, rafmagnsverkfræði og jarðvísindi.

„Fjármálin eru okkur erfið en árangurinn er mikill og það skiptir verulegu máli fyrir íslenskt samfélag að hafa öflugt háskólakerfi. Svo ég hlakka nú bara hreinlega til að vinna með stjórnvöldum og samfélaginu að því að efla háskólann og við treystum því að það muni gerast,“ segir Jón Atli að lokum.                                                                                  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert