Myndavélar reikna út meðalhraða á Grindavíkurvegi

Íslendingar hafa frá árinu 2007 búið við svokallað punktaeftirlit.
Íslendingar hafa frá árinu 2007 búið við svokallað punktaeftirlit. Jakob Fannar Sigurðsson

Vegagerðin bindur vonir við að strax á næsta ári verði teknar í notkun myndavélar sem mæla meðalhraða ökutækja á sex til sjö kílómetra kafla á Grindavíkurvegi. Þetta segir Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar hjá Vegagerðinni, í samtali við mbl.is. Svo gæti farið að slíkt myndavélakerfi verði einnig til staðar í nýjum Norðfjarðargöngum en útboðsferli stendur þar yfir.

Sjálfvirkt eftirlit á meðalhraða bifreiða fækkar slysum stórlega og sparar samfélaginu peninga, að því er fram kemur fram í skýrslu frá verkfræðistofunni Mannvit, sem unnin var í samstarfi við umferðardeild Vegagerðarinnar, með það að markmiði að kanna kosti og galla innleiðingu meðalhraðaeftirlits.

Borgar sig hratt upp

Það tekur aðeins um eitt ár að vinna til baka þann kostnað sem til fellur við uppsetningu og rekstur myndavélanna. Ábatinn til 50 ára, að frádregnum kostnaði, er í skýrslunni metinn á einn til einn og hálfan milljarð króna á hvern vegkafla. Að baki þeim tölum eru tölulegar forsendur sem byggja á virði mannslífa.

Í meðalhraðaeftirliti felst að tekin er mynd af ökumanni og númeraplötu bifreiðar á einum punkti. Jafnframt er þar skráður niður hraði ökutækis og öxulþungi þess. Á hinum enda vegkaflans er svo tekin sams konar mynd en hugbúnaður sér um að reikna meðalhraða bílsins á vegkaflanum. Hafi ökumaður ekið hraðar en leyfilegur hámarkshraði kveður á um, er ökumanni gert viðvart með rauðu blikkandi ljósi. Hann má þá eiga von á því að þurfa að borga sekt, að undangenginni greiningu starfsmanna, sem yfirfara myndir af þeim sem brotlegir reynast. Öðrum myndum er eytt.

Frétt mbl.is: Sjálfvirkt eftirlit fækkar slysum

Í skýrslunni kemur fram að hugsanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir um 14 alvarleg slys og sex banaslys í umferðinni ef sjálfvirku meðalhraðaeftirliti hefði verið beitt á ákveðnum vegköflum.

Fimm vegkaflar skoðaðir

Fimm vegkaflar voru teknir fyrir í skýrslunni; áðurnefndur Grindavíkurvegur, Akrafjallsvegur, Ólafsfjarðarvegur og tveir vegkaflar á hringveginum, í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Fram kemur í skýrslunni að erlendar rannsóknir sýni að sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit sé skilvirkara en sjálfvirk punktahraðaeftirlit, sem íslenskir ökumenn þekkja. Norsk rannsókn sýnir með óyggjandi hætti að alvarlegum slysum fækkaði meira á svæðum þar sem meðalhraðaeftirliti var beitt, en á svæðum þar sem notast var við punktahraðaeftirlit.

Auður Þóra segir að Vegagerðin hafi verið í samstarfi við norska kollega vegna þessa. Þar hafi reynslan sýnt að verulega dragi úr alvarlegum slysum og mannskaða á þeim köflum þar sem meðalhraðaeftirlit hefur verið reynt.

Kafli í samgönguáætlun

Spurð hvort pólitískur vilji sé fyrir verkefninu svarar Auður því til að verið sé að skrifa tillögur að samgönguáætlun fyrir árin 2018-2021. Í henni verði að finna kafla um meðalhraðaeftirlit. Ljóst sé hins vegar að fjárveitingar þurfi að koma til, áður en eftirlitskerfi sem þetta verður sett upp. „Það er verið að skrifa þetta inn í samgönguáætlun en það þarf auðvitað fjárveitingar. Það er ekki hægt að segja að við höfum uppáskrift Alþingis enn.“ Hún bindur hins vegar vonir til að kerfið verði komið í gagnið á Grindavíkurvegi, hið minnsta, á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert