„Við auðvitað stöndum við samninga“

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Rax

„Við auðvitað stöndum við samninga, það er algjör eining um það,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is. Benedikt lýsti því yfir í blaðagrein fyrir nokkru að vel komi til greina að ríkið hafi aðkomu að því að leysa þann vanda sem steðjar að sauðfjárframleiðslu í landinu en það verði hins vegar ekki gert á meðan í gildi eru búvörusamningar sem stuðla að offramleiðslu.

Þá sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra um helgina að stjórnvöld hefðu ekki annað í hyggju en að standa við búvörusamninginn sem samþykktur var í haust. Aðspurður segist Benedikt ekki líta svo á að afstaða sín og forsætisráðherra stangist á enda tali þeir báðir um að fulltrúar bænda hafi kallað eftir aðkomu stjórnvalda til að bregðast við þeim vanda sem blasi við og að horfa verið til hagræðingar til framtíðar í stað skammtímalausna.

„Það er nú nákvæmlega sama áhersla hjá okkur báðum og öllum í ríkisstjórninni,“ segir Benedikt. „Bændasamtökin eru komin og vilja sem sagt gera ákveðnar breytingar eða fá meira, þá eigum við að horfa á það að það megi ekki halda áfram offramleiðslan. Við verðum þá að reyna að grípa til aðgerða um leið sem stoppi þessa offramleiðslu.“

Unnið að nánari útfærslu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur kynnt tillögur sínar um mögulegar lausnir á þeim vanda sem blasir við sauðfjárbændum vegna lækkunar afurðaverðs fyrir bæði þingnefnd og ríkisstjórn. Málið er nú í vinnslu og standa vonir til að nánari útfærsla tillagnanna liggi fyrir öðrum hvorum megin við helgina. Meðal þeirra hugmynda sem eru til skoðunar eru uppkaup ríkisins á ærgildum.

„Það er meðal þeirra hugmynda sem hafa verið nefndar og þá er verið að hugsa það þannig að það dragi þá úr framleiðslu næstu árin,“ segir Benedikt, spurður hvernig honum hugnist tillögurnar.

Hann segir tillögurnar hafa verið á frumstigi þegar þær voru kynntar ríkisstjórn fyrir helgi en unnið verður að útfærslu tillagnanna í samvinnu landbúnaðar-, fjármála- og forsætisráðuneytis auk fulltrúa bænda að sögn landbúnaðarráðherra. „Það er bara verið að vinna þetta þessa dagana og menn að funda á hverjum degi og afla sér upplýsinga og svo framvegis,“ segir Benedikt.

„Það má segja það að þessi vandi, eins og formaður Bændasamtakanna hefur nú tekið fram, var nú fyrirsjáanlegur en menn tóku ekki á honum til dæmis í fyrra þegar var verið að ganga frá búvörusamningunum, að reyna auðvitað að skapa þar aðstæður svona til hagræðingar. Það kemur okkur svolítið í koll núna en við verðum auðvitað að spila úr stöðunni eins og hún er,“ segir Benedikt að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert