69 ábendingar um óþef á einum degi

Kísílverksmiðjan United Silicon stendur í Helguvík. Íbúar í nágrenni hennar …
Kísílverksmiðjan United Silicon stendur í Helguvík. Íbúar í nágrenni hennar hafa kvartað ítrekað undan lyktarmengun. mbl.is/Sigurður Bogi

Yfir 400 ábendingar um meinta lyktarmengun frá kísilveri United Silicon í Helguvík hafa borist Umhverfisstofnun í ágúst. Um tugur ábendinga barst í dag en í gær voru þær margfalt fleiri eða 69.

Slökkt var á ofni verksmiðjunnar á miðvikudag í síðustu viku vegna þess að skaut í honum, sem notað er við framleiðslu kísilmálms, seig. Kvartanir undan lyktarmengun héldu þó áfram að berast og það í miklum mæli síðustu daga. Upplýsingafulltrúi fyrirtækisins segir að lykt geti borist frá verksmiðjunni í 1-2 sólarhringa eftir að slökkt sé á ofninum. En í gær, þegar liðin var tæp vika, bárust tugir kvartana til Umhverfisstofnunar. Starfsmaður hennar fór að verksmiðjunni í fyrradag og staðfesti að þar væri lykt að finna. Hvað veldur henni er hins vegar enn á huldu en niðurstöðu sértækra mælinga á loftgæðum er að vænta innan skamms.

Uppkeyrsla ofnsins í United Silicon hófst að nýju í gærkvöldi. Hún tekur að minnsta kosti 1-3 sólarhringa. Á meðan henni stendur er hætta á lyktarmengun að sögn Kristleifs Andréssonar, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins. Spurður hvort ólyktin sem íbúar í Reykjanesbæ hafa kvartað yfir síðustu sólarhringa tengist starfsemi fyrirtækisins segir hann að eftir að slökkt sé á ofninum geti lykt lagt frá honum í um 1-2 sólarhringa. „En svo berst ekkert frá ofninum eftir það.“ Kristleifur segist skilja vel að fólk sé ekki ánægt með lyktina. „Ég skil það fullkomlega.“

Nýtt skaut í bakstri

Í kjölfar þess sem gerðist í síðustu viku þarf að „baka“ nýtt skaut í ofninum. Það er gert hægt og rólega. „Á meðan þessum uppkeyrslufasa stendur eru líkur á lykt,“ segir Kristleifur. Hann segir það skýrast af því að ofninn sé á lágu álagi á meðan þessu ferli stendur.

Starfsmaður Umhverfisstofnunar fór að verksmiðjunni í Helguvík í fyrradag og þá var þar lykt að finna. „Það er því ekki ólíklegt að lyktin sem hefur verið kvartað yfir sé frá þeim, þó að þá hafi verið komnir sex dagar frá því að slökkt var á ofninum,“ segir Einar Halldórsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. Hann segir þó ekki hægt að útiloka að lyktin eigi sér einnig önnur upptök. Gott veður hefur verið á Reykjanesi síðustu daga, logn og sólríkt. Þá er fólk meira úti við og einnig gætu vindáttir haft sitt að segja um þá lykt sem berst íbúum í Reykjanesbæ.

Frekari rannsóknir 

Mengandi efni í skaðlegum mæli hafa ekki mælst frá verksmiðju United Silicon. Það segir þó ekki alla söguna því mögulega eru efni í loftinu sem hafa einfaldlega ekki verið mæld. „Það er verið að gera allar mælingar sem þarf en það er ljóst að það er eitthvað sem veldur þessari lykt,“ segir Einar.

Nú er verið að reyna að fá það staðfest, m.a. með rannsóknum sem norska loftgæðastofnunin NILU hefur gert. Í þeim voru rokgjörn lífræn efnasambönd í andrúmsloftinu mæld, efni sem losna í framleiðsluferli en eyðast við ákveðnar aðstæður, s.s. mjög háan hita. Þegar ofn verksmiðju á borð við United Silicon er í fullri keyrslu eyðast efnin en sé hiti í ofninum ekki nægur geta þau farið út í andrúmsloftið.

Niðurstaðna mælinganna er að vænta innan skamms.

Kristleifur segir að þegar búið verði að keyra ofninn upp að nýju hefjist framleiðsla kísilmálms í verksmiðjunni á ný.

Annað kvöld standa samtök sem kalla sig Andstæðingar stóriðju í Helguvík fyrir íbúafundi vegna United Silicon. Fundurinn fer fram í Hljómahöllinni og hefst kl. 19.

mbl.is