Forvitnilegt súpurölt um Hvolsvöll

Vatnaknattleikurinn er hressandi.
Vatnaknattleikurinn er hressandi. Ljósmynd/Árný Lára Karvelsdóttir

Hin árlega Kjötsúpuhátíð á Hvolsvelli fer fram um helgina. Eins og nafnið gefur til kynna verður súpa á boðstólum fyrir gesti og gangandi auk fjölbreyttrar hátíðardagskrár þar sem hoppukastalar, tónlistarflutningur og vatnaknattleikur fer fram auk fjölda annarra skemmtilegra atriða. Á síðustu árum hafa um 1.500 til 2.000 manns sótt hátíðina og búist er við svipuðum fjölda eða ívið fleiri gestum.   

„Hátíðin hefur vaxið síðustu ár og sérstaklega síðust fimm ár. Það er alltaf fullt á tjaldsvæðinu og margir brottfluttir Hvolsvellingar láta sjá sig,“ segir Árný Lára Karvelsdóttir markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings eystra.   

Margt var um manninn þegar starfsmenn SS skenktu gestum kjötsúpu …
Margt var um manninn þegar starfsmenn SS skenktu gestum kjötsúpu á hátíðinni í fyrra. Ljósmynd/Árný Lára Karvelsdóttir

Verðlaun fyrir bestu skreytinguna

Síðustu ár hafa íbúar lagt mikinn metnað í skreytingarnar enda verðlaun boði. Verðlaun verða veitt fyrir best skreytta húsið, best skreyttu götuna og frumlegustu skreytinguna. Einnig verða veitt umhverfisverðlaun Rangárþings eystra og sveitalistarmaður verður útnefndur í fjórða sinn.   

Á föstudaginn 25. ágúst kl. 19 hefst hið eiginlega súpurölt og boðið er bæði upp á súpu í þéttbýlinu og dreifbýlinu.  Í þeim götum á Hvolsvelli þar sem súpa er í boði verða settir niður staurar með auglýsingu í hvorn enda götunnar. Á boðstólum verða hinar ýmsu tegundir af súpu og ekki endilega kjötsúpa. Hins vegar munu starfsmenn SS á Hvolsvelli bjóða upp á kjötsúpu á laugardeginum kl. 15 á miðbæjartúninu. Klukkutíma síðar fer fram hressilegur vatnaknattleikur þar sem spilaður er fótbolti en leikmenn eru hrelldir með ísköldu vatni sem er bunað á þá.

Ungir sem alndnir skemmta sér vel á kjötsúpuhátíðinni.
Ungir sem alndnir skemmta sér vel á kjötsúpuhátíðinni. Ljósmynd/Árný Lára Karvelsdóttir

Leikarinn Gói, Guðjón Davíð Karlsson, verður kynnir hátíðarinnar og mun einnig sprella. Dagskráin er fjölbreytt fyrir alla fjölskylduna og einkum börnin því íþróttaálfurinn úr Latabæ lætur sjá sig auk þess verður hoppukastali, hringekja og loftboltar svo fátt eitt sé nefnt. Á hátíðinni verður einnig nýr folfvöllur tekinn í notkun sem hefur verið settur upp við íþróttasvæðið í bænum.  

Um kvöldið eða kl. 21 verður brenna og brekkusöngur sem lýkur með flugeldasýningu í umsjón Björgunarsveitarinnar Dagrenningar. Í félagsheimilinu Hvolnum verður ball með Stuðlabandinu sem hefst klukkan 23.30.

Þrátt fyrir að rigning sé í veðurkortunum er Árný bjartsýn á að veðrið verði gott. „Við lofum allavega sól í hjarta,” segir hún.  



Skreytingar bæjarins eru skrautlegar og ljóst að ekki er komið …
Skreytingar bæjarins eru skrautlegar og ljóst að ekki er komið að tómum kofanum hjá Hvolsvellingum. Ljósmynd/Árný Lára Karvelsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert