Í annarlegu ástandi á hóteli

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna manns í annarlegu ástandi í anddyri hótels í miðborg Reykjavíkur laust fyrir klukkan hálfsjö í morgun. Maðurinn var ekki gestur á hótelinu. Hann var farinn þegar lögreglan kom á vettvang.

Skömmu síðar var tilkynnt um karlmann hallandi sér upp við ljósastaur við Sæbraut og var hann talinn mjög ölvaður. Sá maður fannst heldur ekki þrátt fyrir leit, samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Rétt fyrir klukkan sjö var óskað eftir aðstoð lögreglu á bílaleigu í hverfi 104 vegna ágreinings á milli leigutaka og leigusala bílaleigubifreiðar vegna tjóns á bifreiðinni.

Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á níunda tímanum í morgun vegna karlmanns sem svaf ölvunarsvefni í anddyri fjölbýlishúss í hverfi 220 í Hafnarfirði. Hann var farinn þegar lögreglan mætti á staðinn.

Tilkynnt var um innbrot í bifreið í hverfi 110 í Reykjavík klukkan hálfátta í morgun.

Klukkan hálfsex í morgun var karlmaður handtekinn á gatnamótum Langarima og Berjarima vegna gruns um að vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna við akstur.

Hann var að auki ökuréttindalaus þar sem hann hafði verið sviptur ökuréttindum fyrir nokkru. Einnig var hann með meint fíkniefni meðferðis og vímugefandi lyfseðilsskyld lyf sem ekki voru talin hans eigin. Maðurinn var fluttur á lögreglustöð til blóðsýna- og skýrslutöku. Var hann frjáls ferða sinna að því loknu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert