Skólasetningu í Hvassaleiti frestað

Nemendur í Háaleitisskóla.
Nemendur í Háaleitisskóla. mbl.is/Rósa Braga

Skólasetningu í Hvassaleiti, annarri af tveimur starfsstöðvum Háaleitisskóla, hefur verið frestað um einn dag vegna veikinda starfsmanna.

Í pósti sem var sendur á foreldra skólabarna kemur fram að margir starfsmenn séu enn veikir og því sé erfitt um vik að taka á móti börnunum.

Skólasetningunni hafði áður verið frestað um tvo daga og átti hún að hefjast á morgun. Þess í stað verður hún á föstudaginn. 

Sótthreinsun er einnig í gangi í skólanum í öryggisskyni til að fyrirbyggja hugsanlegt smit þar sem enn hefur ekki verið staðfest hvað veldur veikindunum. Gripið var til þess ráðs í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og sóttvarnarlækni.

Veikindi hafa herjað á fleiri kennara því kennsla var felld niður í sex bekkjum í Hörðuvallaskóla í morgun vegna veikinda starfsmanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert