„Það er manneskja á bakvið hvern draug“

Kristín Steinsdóttir við vörðuna í Dísubotnum í Stafdal.
Kristín Steinsdóttir við vörðuna í Dísubotnum í Stafdal. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var búin að hugsa mikið um þetta, ég er Seyðfirðingur og þetta fór svo í taugarnar á mér þegar ég var lítil. Mér fannst þessi stúlka alltaf hafa verið gerð að hálfgerðum kjána, að hún vildi fara klæðalítil yfir hæðina eins og segir í þjóðsögum,“ segir Kristín Steinsdóttir rithöfundur í samtali við mbl.is um afhjúpun minningarskjaldar um Þórdísi Þorgeirsdóttur, sem lést á voveifanlegan hátt í Stafdal ofan Seyðisfjarðar árið 1797.

Kristín á frumkvæði að gerð minningarskjaldarins og segir kominn tíma á að Dísu verði minnst á annan hátt en sem draugs sem ásótti fólk og kvaldi. Gengið verður upp að skildinum kl. 17 í dag, en Gönguklúbbur Seyðisfjarðar hefur stikað þangað nýja gönguleið.

„Árin liðu og í hvert skipti sem mér datt í hug þessi saga varð ég reiðari fyrir hennar hönd. Svo fór ég að kynna mér þetta dálítið vel og endaði með því að skrifa skáldsögu, sem heitir Bjarna-Dísa og kom út árið 2012. Ég skrifaði bæjaryfirvöldum þegar ég var komin þetta langt og sagði við þau að ef mér tækist að selja bókina vel vildi ég bjóða þeim upp á samstarf,“ segir Kristín.

Samstarfið var á þá leið að Kristín bauðst til að kaupa minningarskjöld sem Seyðfirðingar myndu sjá um að koma upp í Dísubotni, þar sem Þórdís var grafin í fönn og drepin. „Bókin seldist grimmt og nú er komið að þessu,“ segir Kristín.

Einungis draugsímyndarinnar minnst

Kristín segir kominn tíma á að Þórdís fái uppreist æru og að hennar verði minnst sem ungrar konu sem var drepin vegna hjátrúar og fáfræði leitarmannanna.

„Eins og maður segir við alla hrokagikkina sem segja; „Hvað er þetta manneskja, ætlar þú að fara að reisa minnismerki um draug?“ Þá segi ég bara; „Bíddu, bíddu, bíddu, ef að draugar hafa yfir höfuð verið til, þá hafa þeir í upphafi allir verið manneskjur. Það er manneskja á bakvið hvern draug.“

Í þessu tilfelli er það bara draugsímyndin um hana Dísu sem er Þórdís Þorgeirsdóttir og ekkert annað. Það er voðalega ljótt hvernig var farið með þessa stúlku. Hún var bara vinnukona, hún hafði gaman af því að vera fín og hver hefur ekki gaman af því að vera fínn? Hún var fátæk, hún var lagleg, en hún mátti það ekki því að hún var bara vinnukona og átti bara að vera í sínu standi,“ segir Kristín.

Minningarskjöldurinn á vörðunni.
Minningarskjöldurinn á vörðunni. Ljósmynd/Aðsend

Lýst af hroka í þjóðsögunni

„Henni er lýst af svo miklum hroka í þjóðsögunni, sem hrokagikk sem vildi bara klæða sig eins og menn gera í erlendum stórborgum. Það er talað svo illa um hana og henni er ekki gefinn neinn séns,“ segir Kristín, sem telur það lið í kvennabaráttunni að rétta hlut Þórdísar í sögunni.

„Þetta fór alltaf svolítið mikið í taugarnar á mér og fer ekki síður enn þann dag í dag. Mér finnst þetta vera ákveðinn liður í kvennabaráttunni að koma Dísu alla leið sem konu.“

Sorgleg örlög Bjarna-Dísu

Þórdís, sem var frá Eskifirði, lagði upp í ferðalag yfir Fjarðarheiði ásamt Bjarna bróður sínum í nóvembermánuði árið 1797. Þau lögðu upp frá Þrándarstöðum á Héraði og hugðust ganga til Seyðisfjarðar.

Þau lentu í miklu óveðri og snjóbyl og villtust af leið. Ákváðu þau því að grafa sig í fönn en síðan freistaði Bjarni þess að ná til byggða eftir hjálp. Hann komst við illan leik að bænum Firði í Seyðisfirði, en ekki var hægt að leita að Þórdísi fyrr en veður lægði, fimm dögum síðar.

Dísa hírðist ein í fönninni allan þann tíma, ekki með neitt til matar nema böggul með hangikjöti og kút af brennivíni. Leitarmennirnir fundu Dísu neðarlega í Stafdal og var hún þá mjög illa haldin. Leitarmennirnir, þar á meðal Bjarni bróðir hennar, höfðu talið hana af, sem eðlilegt má teljast. Er hún sýndi hins vegar lífsmark töldu þeir hana afturgöngu og drápu hana.

Þórdís var jarðsett að Dvergasteini við Seyðisfjörð, en illt nafn fylgdi henni ætíð síðan.  Þjóðsagan segir að hún hafi gengið aftur, lagst á fólk og kvalið. Bjarni bróðir hennar eignaðist þrettán börn sem öll létust og segir sagan að það hafi verið vegna bölvunar Dísu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert